Vel heppnuð A! að baki

A! Gjörningahátíð fór fram á Akureyri um helgina í Listasafninu á Akureyri, Hofi, Deiglunni og Mjólkurbúðinni. Fjölbreyttir gjörningar og leikhústengd verk af öllum toga voru á dagskránni. Einnig var haldin gjörningasmiðja fyrir ungmenni á aldrinum 12-18 ára í umsjón Arnar Alexanders Ámundasonar þar sem saga gjörningalistar var skoðuð og gerðar spennandi tilraunir með miðilinn.

23 alþjóðlegir listamenn tóku þátt og komu frá Noregi, Finnlandi, Hollandi, Króatíu og Íslandi. Þátttakendur voru Árni Vil og Lísandra Týra Jónsdóttir, Marte Dahl, Áki Frostason og Andro Manzoni, Sunneva Kjartansdóttir, Ari Logn, Tianjun Li (Timjune), Drengurinn Fengurinn, Linde Rongen og Eydís Rose Vilmundardóttir, Fríða Katrín Bessadóttir, Hildur Elísa Jónsdóttir, Alysse Bowd, Kjersti Austdal, Tjátiljurnar.

A! Gjörningahátíð! er haldin árlega og fór nú fram í ellefta sinn. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Gilfélagsins, Myndlistarfélagsins á Akureyri, Listnámsbrautar VMA og Akureyrarbæjar. A! verður næst haldin 8.-10. október 2026.