Flýtilyklar
Ný verk í eigu Listasafnsins á Akureyri
Listasafnið á Akureyri hefur fest kaup á tveimur skúlptúrverkum eftir Margréti Jónsdóttur leirlistakonu. Verkin, sem unnin eru úr steinleir, bera heitin Guðrún Runólfsdóttir og Matthías Jochumsson og voru þau gerð sérstaklega fyrir sýningu Margrétar í Flóru menningarhúsi á Sigurhæðum á liðnu ári, 2025.
Margrét sótti innblástur í fjölskyldumyndir sem prýða veggi á Sigurhæðum. Með verkunum gaf hún fyrrum ábúendum Sigurhæða nýja ásjónu í keramíki. Að sýningu lokinni samþykkti listasafnsráð kaup á verkunum og eru þau nú orðin hluti af safneign Listasafnsins á Akureyri, sem er mikið fagnaðarefni.
Margrét Jónsdóttir er fædd á Akureyri árið 1961 og lærði leirlist í Kolding í Danmörku. Hún hefur starfað sjálfstætt að listsköpun um áratugaskeið, við gerð nytjalistar, stærri listmuna og listskreytinga. Í meira en tvo áratugi hefur hún starfrækt vinnustofu að Gránufélagsgötu 48 á Akureyri þar sem hún bæði vinnur að listsköpun sinni og selur muni í gallerýi sem þar er jafnframt til húsa. Margrét hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér heima og erlendis.

Á árinu 2025 fagnaði Margrét fjörutíu ára starfsferli með einkasýningum í Listasafninu á Akureyri og í Flóru menningarhúsi á Sigurhæðum. Sýningin á Sigurhæðum tengdist á sérstæðan hátt menningarsögu hússins, sem er í eigu Akureyrarbæjar og hýsir í dag menningarstarf undir stjórn Kristínar Þóru Kjartansdóttur. Verk Margrétar binda fallega saman hugmyndir um heimilislíf, samfélag og menningu þjóðar.
Leit