Allt til enda 2023



Allt til enda: Listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri 

Elías Rúni – Myndasögur 

Fyrsta vinnustofa Allt til enda fer fram 21.-22. október 2023. Þá mun Elías Rúni, myndasöguhöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður, bjóða þátttakendum að gera tilraunir með myndasöguformið og kynnast ólíkum leiðum til að segja sögur í myndum með áherslu á skapandi form og frásögn. Innblástur verður sóttur í þætti í umhverfinu og úr hversdagsleikanum, sagna leitað í minningum og því sem er efst á baugi í samfélaginu. Vinnustofunni lýkur með sýningu í safnfræðslurými Listasafnsins sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Sýningin stendur til 12. nóvember 2023. 

Elías Rúni útskrifaðist með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og diplómur í myndasögum frá ÉESI í Angoulême í Frakklandi og teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hann hefur gefið út tvær myndasögur og leggur megináherslu á heimildarmyndasögur. Hann hefur birt greinar í ýmsum tímaritum, svo sem The Nib í Bandaríkjunum, hinu ítalska Internazionale og Charente Libre í Frakklandi.  

Aldur: 3. – 6. bekkur.*
Tímasetning: 21.-22. október kl. 11-14 báða daga.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert en skráning nauðsynleg.
Skráning: heida@listak.is

Allt til enda felst í því að bjóða börnum á grunnskólaaldri að sækja þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri og vinna þar verk undir leiðsögn listamanna og hönnuða. Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í öllu ferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið í samstarfi við leiðbeinanda og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í lok listvinnustofunnar og verður öllum opin. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu, allt frá upphafi til enda. 

Allar nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri, á netfanginu heida@listak.is eða í síma 892-0881.  

Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Safnasjóðs. Verkefnið er styrkt af Safnasjóði og Akureyrarbæ.