Sigurður Guðjónsson



Sigurður Guðjónsson
Hulið landslag
02.12.2023 – 04.02.2024
Salur 11

Sigurður Guðjónsson er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk, þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann beinir einkum sjónum að virkni margs konar tækjabúnaðar, þar sem áhorfandinn er lokkaður inn í heim sefjandi endurtekningar, takts og reglu og mörk hins mannlega og vélræna verða óljós.

Verkið Enigma einkennist af sefjandi endurtekningum, þar sem takturinn er sleginn eins og hjartsláttur alheimsins sem kemur reglu á óreiðuna. Með rafeindasmásjá má greina kolefnisbrot og gera örsmáan efnisheiminn sýnilegan með milljónfaldri stækkun. Þar sjáum við óravíddir, ekki ósvipaðar þeim sem við getum séð með stjörnukíki sem beint er út í himinhvolfið. Titringur og taktur í ólínulegri frásögn, sem byggir á minnsta mögulega mælikvarða, opna okkur heim svimandi vídda.

Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós, sem samanstóð af vídeóinnsetningum í Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði.