Kveikja

 

KVEIKJA í Ketilhúsi

Um náttúru, hughrif og neista í myndlist

Náttúran hefur aðdráttarafl sem flestir finna á eigin skinni þegar einhverjum tíma er eytt utan bæjarmarkanna. Vellíðanin sem allflestir finna fyrir úti í náttúrunni er nokkuð óumdeild og ótal fjálgar lýsingar skálda eru til af upplifunum af náttúrudýrðinni, sem ekki verður reynt að endurleika hér.  Síðan húmanisminn ruddi sér til rúms á 16. öldinni hafa listamenn velt náttúrunni fyrir sér. Eftir að maðurinn fór að kannast við sjálfan sig í stóra samhenginu fór hann að sjá náttúruna. Ekki einungis sem bakgrunn eða einfaldan veruleika, farartálma og matarkistu heldur sem sjálfstætt fyrirbæri skynjunar. Það er útbreiddur misskilningur að iðnbyltingin hafi kallað lækina, trén og grundirnar til aðalhlutverks. Það var húmanisminn. Um leið og við fórum að aftengja okkur trúarkreddunum sáum við dýrð sköpunarinnar. Strax á upphafsárum iðnbyltingarinnar á 18. öldinni fer landslagsmálverkið þó að njóta sífellt meiri borgaralegra vinsælda. Kannski var það hin öra borgarmyndun sem olli því að mannskepnan fór að sakna náttúrunnar og sótti í eftirmyndina. Ef til vill olli skoðun listamanna á náttúrunni vitundarvakningu um fegurð hennar. Í náttúrunni má finna fyrir hughrifum, einhverri illútskýranlegri vellíðunartilfinningu. Kannski er hún bara lærð af listasögunni.  Að leyfa sér að fá um stundarsakir innsýn í einhvern dýrðlegan heim og eiga hlutdeild í honum.

Þetta hlýtur að vera ákjósanlegt ástand en samt eru í rauninni sárafáir sem eyða miklum tíma dagsins í náttúrunni, þessari uppsprettu áreynslulítillar vellíðunar. Náttúran er enda síkvik, óútreiknanleg og annsi oft svo langt í burtu. Má kannski allt eins njóta minningarinnar um hana, eftirmyndar? Má ef til vill líkja eftir sólarljósinu með rafmagnslömpum og tengja við minninguna um umfang þess með gulum flötum á gólfi og veggjum? Sogast inn í náttúrulýsingar í mæltu máli og kalla þannig fram kunnuglega vellíðanina og minningar úr bjarmanum í náttúrunni. Grafa niður á birtuna sem er svo eðlilegt að finna fyrir.

1_web

Alvöru ljós

Í sýningunni Kveikju í Sjónlistamiðstöðinni tekst Jóhanna Helga Þorkelsdóttir meðal annars á við upplifun mannsins í náttúrunni og hvernig hægt sé að líkja eftir þeirri dularfullu vellíðan sem oft fylgir náttúruupplifun, án aðkomu náttúrunnar sjálfrar. Hún hefur í þeim tilgangi kynnt sér rannsóknir sem sýna að maðurinn hafi meðfædda þörf fyrir tengsl við náttúruna og því ætti vansælum, náttúrusviptum nútímamanninum að vera farsælast að hlaða batteríið úti í hinni guðsgrænu. Í athugunum sínum hefur Jóhanna fundið rannsóknir sem sýna að jafnvel myndir af náttúru geri sama gagn, þ.e. að náttúrustaðgenglar geti gagnast okkur á svipaðan hátt og náttúran sjálf.

Á efri hæð Ketilhússins er einhvers konar therapeutísk tilraunastofa þar sem leitast er við að tengja inn á minningar um raunverulega náttúru. Þar eru verk úr dagsljósalömpum sem líkja eftir birtu sólarinnar og eru taldir hafa endurnærandi áhrif. Verksmiðjuframleitt dagsljósið skín í gegnum filmur með ljósmyndum af vatni sem málað hefur verið ofan í með vatnslit. Gestir geta hlýtt á hljóðupptöku af dáleiðslu sem byggir á náttúrulýsingum og með því kallað fram náttúrumyndir fyrir hugskotum sér, til slökunar og endurnæringar.

Á neðri hæð Ketilhússins flæða gulir fletir frá gluggum rýmisins, yfir gólf og upp á veggi. Þeir taka form sín af því hvernig sólin hefur streymt inn í rýmið á ákveðnum tíma dagsins og myndað fleti markaða af gluggapóstum, stiga, handriði og öðru í rýminu sem tálmar för ljóssins og kastar þannig skugga. Þetta er einhvers konar minning um sólarljós, tilraun til að halda í það náttúrulega, óstjórnanlega sem einu sinni var og við kunnum svo ljómandi vel við.

Á auðum veggjunum, þar sem sólar hefur ekki notið við, hanga verk sem sýna aðþrengt ólgandi vatn. Verkin eru sett saman úr fjórum ljósmyndum hvert, en við þá samsetningu myndast göng, farvegur, æð sem vatnið fossar innan. Þarna er ekki gerð tilraun til að skapa eftirmynd af landslaginu heldur eru þar brot úr náttúrunni notuð til að byggja nýja mynd.

Myndirnar voru teknar á ferð Jóhönnu um San Sebastian á Spáni þar sem hún gekk fram á þverhníptan klett sem sjórinn lamdi í ölduróti þónokkrum metrum neðar. Upplifunin hlýtur að hafa haft áhrif á hana, því eitthvað fékk hana til að leggja á sig þá fyrirhöfn og óþægindi sem því óhjákvæmilega fylgir að hanga fram af kletti með myndavél til að reyna að fanga glefsur af náttúrukraftinum. Þær má síðar nota til að raða saman og byggja úr nýja mynd sem vonandi felur í sér kraft fyrirmyndarinnar, en setur hana í nýtt, óhlutbundnara og víðara samhengi.

Verkið vekur upp ýmsar tengingar við vatnslitamálverkið, enda myndefnið malerískt í sjálfu sér; hreyfing, birta, ólga og hvítfyssandi vatn sem mætir sandsvörtum klettavegg. Verkin eru prentuð á vatnslitapappír og sýna vissulega eina meginuppistöðu vatnslitarins, vatn. Myndirnar hætta svo gott sem alveg að vera brim sem brotnar við klettavegg og hinir óhlutbundnu eiginleikar myndarinnar verða ofan á.

2_web

Náttúran og hin ófinnanlega ónáttúra

Freistandi er að líta á sýninguna Kveikju í heild sem landslagsmálverk, enda er þar reynt að færa náttúruna heim í stofu, ef svo má að orði komast, og endurskapa tilfinningu fyrir náttúrunni. Í sýningunni er meðvitað reynt að flytja eftirlíkingar af náttúrunni inn í manngert umhverfi, líkt og landslagsmálverk gera, þótt miðlarnir hér séu örlítið frábrugðnir. Gerð er tilraun til að fanga dýrðina í náttúrunni sem heillað hefur listamanninn og koma henni fyrir í dauðum hlut; raða efnum, línum og litum þannig að andinn fari í efnið og sú innblásna tilfinningin sem því fylgir að standa frammi fyrir náttúrunni lifi að einhverju leyti í verkinu.

Þegar farið er út í svona skilgreiningar er þó vandasamt að finna hvar mörkin liggja. Ef það að flytja náttúruna heim í stofu gæti talist landslagsverk má spyrja sig hvar sú skilgreiningaryfirfærsla, og þar með landslagsverkið, endi (ef það sker sig þá eitthvað úr eða eigi sér yfir höfuð upphaf). Náttúran er jú ekki bara úti í upphöfnu sveitinni, náttúran er alls staðar. Allt í okkar manngerða umhverfi á uppruna sinn í náttúrunni, hún er alltaf nálæg. Þótt margt náttúrulegt hafi tekið róttækum breytingum í meðförum mannanna, jafnvel svo miklum að bestu mönnum verður um og ó, er náttúran sjálf alltaf að umbreytast fyrir tilstilli tíma, veðurs, gangs himintunglanna, umgangs og ágangs dýra og manna. Maðurinn er jú, þrátt fyrir allt, eitt af dýrum náttúrunnar.

 

Sá kraftur sem mögulega felst í listaverki getur einmitt átt uppruna sinn í því hvernig listamaður heillast af þeirri fögru, hamingjuríku tilfinningu sem hann upplifir í náttúrunni og langar að lofa stundinni að lifa lengur, endurskapa hana í listaverki, svo töfrarnir geti lifað og flust milli staða með verkinu. Það er þó ef til vill alltaf á þrautalista skálda og listamanna, óháð viðfangsefni, að reyna að ráða við hið ill- eða óviðráðanlega, koma því í form og miðla því til annarra. Þessi hughrif þurfa auðvitað alls ekki að koma úr ?ósnortinni? náttúrunni og því síður þarf að líkja beint eftir áhrifum eða ásýnd hennar til að upplifa þau, þau geta falist svo víða.

3_web

Kveikjan, neistinn

Ef til vill eru listamenn alltaf að fást við upplifun á tilfinningum sem snerta við kjarnanum sem verða kveikjan að því að eitthvað gerist. Umbreyta þeim í efni eða annað form, leggja efnivið úr öðrum upplifunum saman við og búa til eitthvað nýtt sem stendur sjálfstætt og getur af sér ný hughrif. Er myndlistin ekki alltaf að reyna að finna jafnvægi á títuprjónshausnum þar sem finna má sannar tilfinningar og hugsanir sem hreyfa við okkur? Myndlistin er takmarkalaus vettvangur til að skynja og finna og vera í samtali við samtíma sinn og umhverfi. Skoða manninn í náttúrunni og náttúruna í manninum, staðsetja sig í hverfulum heiminum eða sætta sig við það að eiga í raun aldrei og alltaf stað í þessari endalausu spíral-hringrás.

Við sem áhuga höfum á myndlist skoðum árlega mikinn fjölda listaverka. Við þræðum sýningar, skoðum bækur og blöð og sjáum margt snoturt. Reyndar einnig talsvert óspennandi, eitthvað fyndið, sumt lélegt og margt vitrænt. Allt er þess virði vegna þess að:    bamm!   ? inn á milli sér maður listaverk sem renna undir húðina, skjótast eftir einhverjum leiðslum beint inn í kjarnann á manni og springa þar út.

Verk sem framkalla sannkölluð hughrif og lifa í minninu árum eða áratugum saman, breyta mannfólki. Þau kveikja löngun til að gera eitthvað og tengja sjálfkrafa inn á eitthvað djúpt í manneskjunni ? fara á sama stað og verið er að grafa eftir í hugleiðslu, náttúrulega kjarnann í okkur sem sameinar allar verur, vekur eitthvað þar og staðfestir tilvist þess.

Kannski er myndlistin í heild sinni og upplifunin af henni okkur jafn mikilvæg og  ?ósnortin? náttúran. Væntanlega gera vönduð  myndlistarverk okkur  að betri manneskjum. Litlir neistar hér og þar og út um allt sem alveg má vona að smitist manna í millum og kveiki einhvers staðar elda, sem aftur neisti frá. Hægt og bítandi skíðlogi í öllu saman.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir