Guðrún Einarsdóttir og Ragna Róbertsdóttir

 

 

Um sýningu Guðrúnar Einarsdóttur og Rögnu Róbertsdóttur 

eftir Margréti Elísabetu Ólafsdóttur

 

 

Þessi sýning hefur að geyma verk eftir Guðrúnu Einarsdóttur og Rögnu Róbertsdóttur, sem hafa skipt á milli sín sýningarrýminu í Listasafninu á Akureyri. Þannig má líta svo á að hér séu tvær sýningar í einni, en hluti verkanna var fyrst settur upp á sýningunni Hreyfing augnabliksins í Listasafni Reykjavíkur á liðnu hausti, þar sem einnig voru verk eftir fleiri listamenn. Hér fá Guðrún og Ragna svigrúm til að bæta við verkum og sýningargestir  hljóta fyrir bragðið betri innsýn í list þeirra hvorrar um sig. Eftir stendur spurningin um hvað leiðir þær saman. Hluta af svarinu er að finna í forsendum sýningarinnar Hreyfing augnablikins, þar sem sjónum var beint að verkum listamanna sem nota umbreytingu efnisins sem útgangspunkt. Nú má auðvitað halda því fram að í öllum listaverkum megi finna efni sem hefur verið umbreytt, en það segir aðeins hálfa söguna, því önnur meginforsendan að baki allri listsköpun er hugmyndin eða hugsun listamannsins. Samband efnis og hugmyndar getur verið með ýmsu móti þar sem hvor þáttur um sig fær mismunandi vægi eða þau mætast á jafnréttisgrundvelli. Guðrún Einarsdóttir og Ragna Róbertsdóttir eru um margt ólíkir listamenn, enda tímabil heillar kynslóðar sem skilur á milli þeirra í listinni. Verk þeirra byggja á ólíkum bakgrunni og  reynslu, en engu að síður má finna hjá þeim skyldleika, sem um leið skilur þær að.

Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á sjöunda áratug síðustu aldar í tíð Kurt Zier og Harðar Ágústssonar, þegar ennþá var lögð mikil áhersla á teikningu í skólanum og nemendum kennd grundvallaratriði í beitingu ólíkrar tækni og miðla. Eftir að hafa lokið framhaldsnámi í Stokkhólmi tók Ragna þátt í vakningu sem varð meðal kvenna í myndlist á áttunda áratugnum og stofnaði með þeim Gallerí Langbrók í Reykjavík. Þegar líða tók á níunda áratuginn fann Ragna verkum sínum þann farveg sem hún er nú þekktust fyrir. Þá urðu jarðefni ráðandi efniviður í verkum sem eru gerð úr torfi og hraungrýti. Torfinu er vöðlað saman í stórar rúllur, sem mynda mistór rýmisverk eða það er lagt ofan á hraungrýti sem hefur verið sagað niður í einingar sem síðan er raðað upp.

Allt er í heiminum hverfult 
Þessi umfangsmiklu rýmisverk Rögnu, sett saman úr stökum einingum, hafa á undanförnum tveimur áratugum vikið fyrir veggverkum sem eru unnin beint inn í sýningarrýmið. Þekktust slíkra verka eru innsetningar úr svörtum vikri, sem Ragna notar til að þekja heilu veggina, eða aðeins brot af vegg, allt eftir aðstæðum. Gulur skeljasandur og litað jarðefni sem tekin eru af jaðri hverasvæða, hafa einnig veitt henni innblástur. Úti í náttúrunni sjáum við þessi efni sem formleysur eða þykka massa þar sem þau hafa safnast upp eða brotnað niður í óreiðukennt ástand. Inni í sýningarrýminu birtast þau í nýrri mynd, sem einföld grunnform, oftast ferningar eða ferhyrningar. Einn mikilvægasti þátturinn í verkum Rögnu, hvort sem þau eru unnin úr slíkum jarðefnum eða lituðu akrýlefni sem við sjáum einnig bregða fyrir, er hverfulleikinn. Forgengileiki náttúrunnar, mannsins og jafnvel listarinnar er hluti af merkingu verka Rögnu þar sem listamaðurinn sjálfur er einn hlekkur í löngu ferli. Hlutverk hans er ekki náttúrulegt í þeim skilningi að hann grípur inn í ferlið, færir efnin til með því að flytja þau úr stað, inn á vinnustofuna og síðan inn í sýningarsali. Oft er það ekki fyrr en þangað er komið sem efnið tekur á sig form listaverks.

 

 

Tími efnisins 

Efnin sjálf hafa orðið til við umbrot og efnaskiptingu á löngum tíma í jarðsögunni, en önnur hafa orðið fyrir breytingu þegar þau þrýsta sér upp úr jörðinni í einu vetfangi líkt og vikurinn úr Heklu- og Kötlugosunum. Tíminn sem það tekur jarðefnin að myndast er lengri en æviskeið mannsins, en tími listaverksins getur verið tími sýningarinnar eða tími nokkurra mannsaldra, allt eftir því hvort það fær að standa eða er tekið niður og efninu skilað aftur þangað sem það var upphaflega tekið. Hvort líftími verksins er langur eða stuttur er ekki aðalatriði í huga Rögnu, sem hugsar í gegnum efnin sem sótt eru á staði sem hún hefur tekið ástfóstri við og hafa merkingu fyrir hana persónulega. Hugsanir eða samræða listamannsins við efnið beinist frá hinu smáa að hinu stóra samhengi, sambandi manns og náttúru og samtali listar og menningar við náttúruna og umhverfi sitt í víðum skilningi. Þetta kemur fram í nýjustu verkunum sem byggja á saltmyndunum. Þau vísa til minninga hennar af saltbornum götum borgarinnar í vetrarhálkunum. Þar safnast saltið saman í flekki, blandað óhreinindum, og myndar landslag í sjálfu sér með óreglulegum og flóknum formum.

Í verkum Rögnu er saltið, sjálfur lífselexírinn, sett í annað lífsnauðsynlegt efni, sem er vatn og það blandað ösku og vikri, efni eyðileggingar og endurnýjunar. Ragna skapar samsetningunni aðstæður til að taka á sig mynd og halda síðan ákveðnu formi á bakvið loftþétt gler, sem stöðvar eða hægir á umbreytingunni. Verkin má skoða úr nálægð eða fjarlægð, sem heilstæð form eða fjölbreytileg smámynstur. Hvort sem verk Rögnu eru hlutir, færanlegar lágmyndir eða forgengilegar veggmyndir, skírskotar merking þeirra til sambands manns og umhverfis og þeirra stöðugu umbreytinga sem sífellt eru að eiga sér stað í kringum okkur. Þau vísa til lífsins sem ferlis og tilburða mannsins til að láta til sín taka í þessu ferli án þess að geta hamið það endanlega eða haft stjórn á því. Verk Rögnu Róbertsdóttur má skoða sem inngrip sem skapa skipulag úr óreiðunni, um leið og þau vekja til vitundar um mikilvægi þess að sýna auðmýkt gagnvart umhverfinu. Verk hennar eru jafnframt hverfular táknmyndir fyrir hlutverk mannsins sem virks þátttakanda í mótun þessa sama umhverfis.

 

 

 

 

Guðrún Einarsdóttir (f. 1957) á einnig í samræðu við náttúruna og náttúruöflin í sínum verkum, en á öðrum forsendum. Hún hóf nám í myndlist í Myndlistarskólanum í Reykjavík um miðjan níunda áratuginn og hélt síðan áfram í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þaðan sem hún lauk námi undir lok áratugarins, sem er jafnframt áratugur nýja málverksins í sögu myndlistar á Íslandi. Málverkið gekk í endurnýjun lífdaga við upphaf hans þegar fram á sjónarsviðið komu tjáningarrík og óhefluð verk, en þegar líða tók undir lok hans urðu fáguð og öguð vinnubrögð meira áberandi. Á þessu tímabili voru innlendir og erlendir stílar og stefnur úr fortíðinni endurskoðaðir og ný viðfangsefni litu dagsins ljós. Landslagsmálverkið, sem var íslenskum málurum í upphafi aldarinnar hugleikið, öðlaðist nýtt og annað líf en um leið fóru listamenn að horfa á samband málverks, manns og náttúru út frá áður óþekktu sjónarhorni.

 

 

 

 

Eiginleikar efniviðarins Leið Guðrúnar að þessu leiðarstefi í sögu málaralistar á Íslandi hefur legið í gegnum sjálfan efnivið málverksins, olíulitinn, fremur en fyrirmyndina. Hún hefur öðlast djúpa þekkingu á eiginleikum olíunnar og því má segja að í verkum hennar sameinist tvö meginstef úr sögu málaralistar á 20. öld, sem eru landslagið og málverkið sjálft. Þá er átt við að jafnvel þótt listamenn hafi haft landslag að fyrirmynd, hafa þeir jafnframt velt fyrir sér eiginleikum málverksins, tvívíðum fletinum og getu litarins til að móta form og skapa blekkingu ummáls og rýmis á þessum sama fleti. Guðrún byggði á þessari arfleið þegar hún byrjaði að mála einlit málverk í upphafi ferils síns, þar sem hún notar ýmis áhöld til að draga fram áferð litarins með einföldum formum og mynstrum. Verkin eru ýmist abstrakt eða hafa sterka skírskotun í náttúrleg form og landslagsmyndir. Þannig verður sjálfur efniviðurinn, olíuliturinn, forsenda nýs landslagsmálverks, þar sem landslagið mótast af sjálfum litnum, mismunandi þykkt hans og getu til að blandast, svo úr myndast upphleyptar rákir, taumar, hringir og eyjar á fletinum, einskonar myndgerð náttúra.

Guðrún Einarsdóttir málar ekki með pensli á lóðréttan striga, heldur leggur hún litinn eða ber hann á myndflötinn í nokkrum atrennum með ólíkum aðferðum. Þannig skapar hún samfelld, heilstæð og upphleypt mynstur, sem í návígi vekja hugrenningatengsl við kunnugleg form úr náttúrunni. Sum verkanna virðast gerð eftir nærmyndum af fléttum og skófum, á meðan önnur gætu verið loftmyndir af hæðóttu landi eða hlykkjóttum árfarvegum jökuláa á víðáttumiklum söndum. Hvort heldur sem er, eða hvort mynstrin vekja upp önnur óskyld hugrenningatengsl hjá áhorfandanum, þá er það olía málarans sem hegðar sér með svipuðum hætti og lífræn form náttúrunnar sem finna má í bæði landslagi og dýralífi. Blanda olíunnar og bindiefnanna, sem halda litnum saman og segja til um þykkt hans og áferð, er undistaðan í málverkum Guðrúnar Einarsdóttur. Á löngum ferli hefur hún lært að þekkja olíuna eins og bóndinn jörðina sem hann býr á. Á þessari þekkingu byggir hún nýjustu verk sín, þar sem hún hefur leyft ólíkum litablöndum að flæða yfir stóra strigafleti. Litablöndurnar leggur hún niður á flötinn í mismiklu magni hverju sinni og þyngdaraflið sér til þess að efnið leitar inn að miðja og þornar þar á löngum tíma. Þar safnast efnið saman og verður mest afgerandi. Það  myndar hreistur og skorninga, sem teygja sig í  taumum og bólstrum frá jöðrunum á þornunartímanum sem tekur marga mánuði.

Í nýjustu verkunum er yfirborðið ekki ein samfella þar sem miðjan er í forgrunni sem kjarni verksins, eða miðflóttarafl sem skapar annarskonar rýmiskennd. Sjálf málverkin verða til þegar listamaðurinn hefur skapað því viðeigandi aðstæður. Hann lætur litinn á léreftið, en leyfir tímanum að vinna á efninu og móta endanlegt form þess. Endapunkturinn er þó aðeins ákvörðun um að ákveðnu ferli sé lokið, því efnið heldur áfram að taka breytingum, þegar liturinn dofnar og fleiri sprungur myndast á fletinum. Þannig heldur tíminn áfram að vinna á olíunni eftir að verkinu er lokið.

Sem efni er olían aldrei kyrr, ekki frekar en náttúran sjálf, og þó er ekki þar með sagt að eintómar tilviljanir ráði ferðinni. Þekking Guðrúnar á efniviðnum gerir henni kleift að sjá fyrir sér, upp að vissu marki, hvernig niðurstöðu hægt er að fá með tiltekinni litablöndu. Þegar hún hefur verið búin til og litnum hellt á flötinn sleppir hún tökunum og leyfir honum að koma sér á óvart í umbreytingarferlinu. Þannig líkist listamaðurinn vísindamanni, sem byggir á fyrirfram gefinni þekkingu til að spá fyrir um mögulega útkomu, án þess að geta nokkurntíma verið viss um hver endanleg niðurstaða verður. Guðrún gengur út frá gefnum forsendum og ákveðnum líkindum, en tekur um leið hið óvænta og óviðráðanlega með í reikninginn. Til að skerpa á sýnileika, eðli og hegðun efnanna í lok þornunar, litar Guðrún yfirborðið stundum með örþunnri litablöndu. Það sem ekki er hægt að sjá fyrir og listamaðurinn ákveður að taka ekki fram fyrir hendurnar á þessum efnaferlum, sem verða hluti af inntaki verkanna á sama hátt og hið ófyrirséða er hluti af náttúrunni. Sem listaverk fela málverkin í sér hugmyndina um varanleika, en nálgun Guðrúnar ber með sér þá fullvissu að ekkert ástand varir að eilífu.

 

-

  Myndir  Sjónpípa Fræðsla

 

Næsta | Sýningar 2013 | Fyrri