Umgerð

Hugsteypan
Umgerð
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús, 31. október - 13. desember 2015

Á sýningu Hugsteypunnar Umgerð gefur að líta marglaga innsetningu sem unnin er sérstaklega inn í
rými Ketilhússins. Í neðra rýminu blandast margvíslegur efniviður við málaða fleti og ljósmyndir í
ýmsum formum sem ásamt lýsingu kalla fram ótal mismunandi sjónarhorn. Efra rýmið býður upp á
sjónarhorn þess sem stendur fyrir utan og verður fyrir vikið eins konar áhorfendastúka. Á ferð sinni
um sýningarsalinn eru áhorfendur hvattir til að fanga áhugaverð sjónarhorn á myndavélar eða síma
og gerast þar með virkir þátttakendur í verkinu. Þegar áhorfendur skrásetja upplifun sína og deila í
gegnum samfélagsmiðla hafa þeir áhrif á framgang og þróun verksins þar sem myndunum er varpað
aftur inn í rýmið jafnóðum. Þannig setja listamennirnir skynjun, hlutverk og stöðu áhorfandans
gagnvart listaverkinu í brennidepil.

Öllum er velkomið að taka þátt í sýningunni með því að deila myndum í gegnum Twitter eða
Instagram merktum #umgerd eða senda tölvupóst á umgerd@sharypic.com.

Hugsteypuna skipa Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir. Tvíeykið hefur verið virkt í
sýningarhaldi frá stofnun samstarfsins árið 2008. Sjá nánar á Hugsteypan.com.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.