Sara Björg Bjarnadóttir

Sara Björg Bjarnadóttir
Tvær eilífðir milli 1 og 3
25.03.2023 – 13.08.2023
Salur 12

„Þú gengur meðfram sjávarsíðunni. Virðir fyrir þér óendanleika sjóndeildarhringsins en speglar inn á við, þar er heldur engan endi að finna. Til að ná skerpu þarf að afmarka.

Þú gengur inn, rýmið er afmarkað, afmarkað af líkama, framlenging af líkama. Líkami og rými eru eitt og hið sama en aðskilin í senn, eins og tveir vökvar í sama máli. Hugsun er líkamleg, það býr viska í líkamanum. Milli huga og líkama eru huglæg skil; tveir dropar í sama vatni. Vitundin svamlar milli líkama, huga, rýmis og allra rásanna sem flæða þar á milli.“

Sara Björg kafar út í rýmið og leyfir líkamlegri tengingu sinni við það að leiða sig áfram í framsetningu þessa verks – verks sem reynir að fanga tilfinningu, ástand eða tíma sem orð ná ekki utan um. Óáþreifanleg minning af nýliðnu tímabili stöðnunar. 

Sara Björg Bjarnadóttir (f. 1988) útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2015. Hún hefur sýnt víða á Íslandi og einnig í Berlín, Vilníus, Los Angeles, Aþenu og London.