Curver Thorodssen - Verk að vinna

 



Í Ketilhúsið er fluttur nýr íbúi. Curver Thoroddsen hefur gert sýningarsalinn að heimili sínu og smíðað hús inni í húsinu, eins konar vinnustöð þar sem hann dvelur á opnunartímum Ketilhússins. Gestir sjá móta fyrir honum handan við þunna plastveggina og geta betur fylgst með honum ofan af svölum rýmisins. Hann er umkringdur kössum, möppum og bréfabunkum og situr allsnakinn við þá iðju að fara í gegnum áralanga uppsöfnun af hvers konar pappír og skjölum.

Áratugur er liðinn síðan Curver tók íbúðina sína í gegn undir formerkjum raunveruleikagjörnings. Almenningur gat fylgst með framgangi verksins í rauntíma á vefmyndavél þar sem „Íbúðin“ var máluð og innréttuð á meðan á sýningu stóð. Árið 2007 stóð Curver í Listasafni Íslands með „Drasl til sölu“ þar sem hann kom uppsöfnuðu dóti úr geymslunni í verð. En nú er komið að því að flokka allan þann pappír sem vill safnast upp og fyrnast.

Ýmist hafa gjörningarnir farið fram úti í bæ, á listasöfnum, í fjölmiðlum eða á netinu. Aðeins blæbrigðamunur er á inntaki þessara athafna listamannsins sem og öðrum sem hann hefur staðið fyrir í svipuðum anda. Framsetning hinna hversdagslegu gjörða á forsendum myndlistar er þó hver með sínu sniði og má segja að rannsóknarvettvangur Curvers felist í ólíkri yfirfærslu hins persónulega yfir í hið opinbera.

Verk að vinna / Paperwork spannar nokkur svið eins og gestir munu sannreyna strax frá ýmsum sjónarhornum í sýningarrýminu. Hluti af verkinu nær jafnframt út fyrir Ketilhúsið og á samfélagsmiðla þar sem fólk getur fengið innsýn í umstöflun og flokkun Curvers. Hann er eitthvað að taka til en hvað það er skiptir ekki endilega máli, né heldur hvort hann verði nokkru bættur að verki loknu. Skattaskýrsla kann að koma heim og saman, jólakort síðustu ára lenda í sama skókassa, gul reikningsyfirlit mætast í þar til gerðri möppu og listar, ótal listar með nýársheitum, dagsplönum og ársáætlunum, koma fram í dagsljósið. Þannig endurspeglar verkið ólíkan veruleika sem manneskjan tekst á við frá degi til dags. Hún er ein með sjálfri sér, berskjölduð og nakin; hún kallast á við umhverfi sitt og miðlar einhvers konar sjálfsímynd; í einkalífi og starfi sinnir hún ótal hlutverkum; hún er ópersónulegur hluti af samfélagslegu kerfi og þar fram eftir götunum. Ekki síst á hún sér samastað í væntingum og draumum sérhvers manns. Curver varpar ljósi á þessa sjálfsögðu hluti í raunveruleikagjörningum sínum og dregur um leið fram hverfulleik þeirra.

Texti: Markús Þór Andrésson.