Friðgeir Helgason - Stemning

Friðgeir Helgason
Stemning
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús
9. september - 12. nóvember

Friðgeir Helgason (f. 1966) flutti ungur til Bandaríkjanna. Hann lagði stund á kvikmyndagerð í Los Angeles City College í Hollywood 2005-2006, þar sem ljósmyndun fangaði huga hans. Hann stundaði ljósmyndanám við sama skóla frá 2006 til 2009 og hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga í Bandaríkjunum og á Íslandi.

„Ljósmyndirnar á þessari sýningu voru teknar á árunum 2008-2013 þegar ég þvældist um þau svæði sem mér þykir vænst um: annars vegar á Íslandi og hins vegar í Louisiana í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Myndirnar voru allar teknar á Kodakfilmu sem ég prentaði í stækkara upp á gamla mátann. Það jafnast fátt á við að keyra stefnulaust um þjóðvegi með gamla góða Pentaxinn og slatta af filmu í skottinu. Stoppa í vegasjoppum, fá sér í gogginn og spjalla við innfædda. Skynja andrúmsloftið og taka ljósmynd þegar tækifæri gefst. Þessi sýning á að fanga þá stemningu.“