Ferðalangar á Fjöllum

Ljósmyndir Þóru Hrannar Njálsdóttur

Sæluhúsið við Jökulsá á Fjöllum, sem er steinhús, var reist árið 1881 og er meðal merkustu byggingarsögulegu minja þjóðarinnar. Það tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns Íslands sem telur á fimmta tug húsa.

Í sæluhúsinu er afar merkt timburþil sem skiptir jarðhæð þess í tvö herbergi. Þilið er einstakt fyrir þær sakir að ferðamenn sem komið hafa í húsið á rúmlega hundrað árum hafa ritað nafn sitt og dagsetningu á það. Þar á meðal eru margir þjóðþekktir Íslendingar eins og ljósmyndarinn Vigfús Sigurgeirsson (1900-1984), en stórt safn mynda hans er varðveitt í Ljósmyndasafni Íslands, Þjóðminjasafni. Hér er því um að ræða áhugaverða og óvenjulega heimild um gestakomur í húsið og mannlíf tengt því. Sýningin Ferðalangar á Fjöllum veitir skemmtilega innsýn í þá sögu.

Áhugaljósmyndarinn Þóra Hrönn Njálsdóttir er höfundur ljósmyndanna, en alls hefur hún myndað um 700 áritanir í sæluhúsinu. Gunnlaugur Haraldsson, þjóðháttafræðingur rýndi síðan í nöfnin og ritaði stutta samantekt um rúmlega 100 einstaklinga og ferðalag hvers og eins svo sem heimildir fundust um. Í tengslum við þessa sýningu gefur Þóra Hrönn, ásamt eiginmanni sínum Sigurjóni Péturssyni, út ljósmyndabókina Aðventa á Fjöllum.

Á sýningunni Aðventa á Fjöllum getur að líta svarthvítar ljósmyndir Sigurjóns af landslaginu á Fjöllum í vetrarbúningi. Myndirnar eru afrakstur níu vetrarferða veturinn 2010-2011 um sögusvið Aðventu á Mývatnsöræfum, en það markast af Mývatni í vestri, Dettifossi í norðri, Jökulsá á Fjöllum í austri og Grafarlöndum í suðri. Ljósmyndir Sigurjóns hafa allar tilvísun í hina ódauðlegu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, sem fyrst kom út á þýsku árið 1936. Sigurjón valdi hundrað og tuttugu setningar og setningabrot úr sögunni. Að því loknu samdi hann tökuáætlun þar sem myndefnið var valið út frá textunum þannig að úr varð heild með vísun í söguna og hélt síðan á fjöll til myndatöku. Hverri mynd fylgir því tilvitnun úr Aðventu. Skáldsagan er þannig til hliðsjónar og innblásturs. Vinnulagið minnir nokkur á aðferð Gunnars löngum við skrif smásagna með tilvísun í íslenskar þjóðsögur og sagnir.

Sæluhúsið við Jökulsá á Fjöllum var reist árið 1881 og tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns Íslands sem telur á fimmta tug húsa.

Í sæluhúsinu er afar merkt timburþil sem skiptir jarðhæð þess í tvö herbergi. Þilið er einstakt fyrir þær sakir að ferðamenn sem komið hafa í húsið á rúmlega hundrað árum hafa ritað nafn sitt og dagsetningu á það. Þar á meðal eru margir þjóðþekktir Íslendingar. Hér er því um að ræða áhugaverða og óvenjulega heimild um gestakomur í húsið og mannlíf tengt því. Þóra Hrönn hefur myndað um 700 áritanir í sæluhúsinu sem sjá má á sýningunni Ferðalangar á Fjöllum og veita ljósmyndirnar skemmtilega innsýn í þá sögu. Gunnlaugur Haraldsson, þjóðháttafræðingur rýndi síðan í nöfnin og ritaði stutta samantekt um rúmlega 100 einstaklinga og ferðalag hvers og eins svo sem heimildir fundust um.

Sigurjón og Þóra Hrönn eru áhugaljósmyndarar og hafa ljósmyndað vítt og breitt um Ísland, sem og víða um heim, s.s. í Grænlandi, Alaska, Bandaríkjum Norður Ameríku, Kína, víða um Evrópu, Líbanon og Namibíu.

Í tengslum við sýningarnar gefa Þóra Hrönn og Sigurjón út ljósmyndabókina Aðventa á Fjöllum og fæst hún í safnbúð.