Samhengi hlutanna



Sjónlistamiðstöðin á Akureyri heilsar nýju ári laugardaginn 12. janúar kl. 15 með opnun sýningarinnar Samhengi hlutanna í Listasafninu á Akureyri. Þar sýna Finnur Arnar Arnarsson og Þórarinn Blöndal splunkuný verk gerð af mikilli alúð með blandaðri tækni. Ferill þessara góðvina hefur fléttast saman um áratugaskeið í bæði leik og starfi og varpar sýningin ágætu ljósi á þau margvíslegu viðfangsefni sem þeir félagar hafa tekið sér fyrir hendur í gegnum tíðina.

Þórarinn hefur gengið með þá einföldu og heillandi hugmynd í maganum að smíða fullkomnasta form tilverunnar, nefnilega kúlu, inn í Sjónlistamiðstöðina.

Mikilvægi þessa hnattar, sem hefur böglast nokkuð fyrir Þórarni, verður þó varla nógsamlega áréttað, því valið á hnettinum hefur leitt af sér sannkallaða töfrasmíð; vinnustofu listamannsins sem rúmast sjálf innan í hveli. Fyrir hvert nýtt verkfæri eða efnivið, sem Þórarinn telur nauðsynlegt að koma sér upp á vinnustofunni í kúlunni, verður jafnframt að endurskapa sérhvern nýjan hlut sem þannig er kominn til sögunnar. Og þannig áfram koll af kolli allt þar til fullsmíðaður hnöttur hefur fæðst af öðrum langtum stærri. Verkferlið sjálft er þannig hafið upp á því sem næst yfirskilvitlegt svið og skáldskapurinn í því verður leið að marki, sem er hvorki fyllilega gefið né skilgreint í upphafi. Rétt eins og lífið snýst ekki endilega um áfangastað í leiðarlok, heldur miklu fremur um hvernig sjálf leiðin mótar áfangastaðinn í sífellu með undraverðum hætti.

Finnur Arnar teflir fram nokkrum sjálfstæðum verkum sem þó eiga í nánu samtali sín í milli. Enda þótt Finnur geri sér mat úr sínu nánasta umhverfi og hverdagslegu hjakki er inntakið í verkunum allt annað en léttúðlegt, því þau varða meginstef í okkar tilvistarlegu vegferð; líf og dauða, sköpun og tortímingu og hinn hverfula tíma sem heldur okkur öllum í ósýnilegum greipum. Stór mynd af fjalli vekur t.d. hughrif um tímaskeið sem er ólíkt stærra í sniðum heldur en tími mannsins við hlið þess. Fjallið lifir jarðsögulegan tíma sem geymir í skauti sínu ris og hnig ótal lífvera. Í skjóli fjallsins lifir margskonar fána og flóra, en við hlið þess heldur listamaðurinn ótrauður áfram sinni vegferð, vopnaður hagnýtu verkfæri til að ala önn fyrir sér og sínum. Hér er það goggur sem hefur í einfaldleika sínum aukið getu forfeðra okkar til að draga sér björg í bú. En gæði verkfærisins og gildi felur jafnframt í sér endalok æviskeiðs annarra lífvera. Þannig lifir maðurinn sjálfur á lífi. Yfir þessu hlutskipti mannanna vaka síðan fjöllin um aldir og ævi. Og að baki þeirra ríkir endalaus algeimurinn ? og jafnvel hann á sitt upphaf og endi.

Sýningin stendur til til 3. mars og er opið alla daga nema mánudaga og þriðjudaga frá kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis.

 

Fræðsla  Myndir  Umfjöllun