Nýleg aðföng



Nýleg aðföng

Valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri
29.05.2021-14.11.2021
Salur 09

Eitt af meginhlutverkum listasafna er að safna myndlist og miðla safneigninni. Því miður er ekkert fjármagn áætlað á fjárhagsáætlun Listasafnsins á Akureyri til kaupa á listaverkum og þannig hefur það verið í meira en áratug. Þetta stendur vonandi til bóta, enda mikilvægt að safna með reglubundnum hætti listaverkum sem endurspegla listasöguna. 

Listasafninu hafa aftur á móti borist margar góðar gjafir á síðustu árum og byggir sýningin Nýleg aðföng á þeim verkum.

Í söfnunarstefnunni segir meðal annars: „Söfnunarsvið Listasafnsins á Akureyri er allt landið en jafnframt leggur safnið sérstaka áherslu á söfnun verka sem tengjast Norðurlandi.“ Móttaka gjafa takmarkast af því markmiði að Listasafnið byggi upp heillega og markvissa safneign. Safnstjóri og fulltrúar í Listasafnsráði fjalla um og taka ákvarðanir er varða móttöku gjafa. Ákvörðunin byggir á söfnunarstefnu safnsins, markmiðum þess og stöðu safneignar á hverjum tíma.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.