VÍXLVERKUN

 

Laugardaginn 2. mars kl. 15 opnaði í Deiglunni, sýningin Víxlverkun þar sem gefur að líta verk listakvennanna D. Írisar Sigmundsdóttur og Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur.

Blíðlyndi, leikgleði, húmor, skelfing, ofsi, togstreita, húmor og ádeila eru nokkur orð sem lýsa myndverkum þeirra Írisar og Herthu. Í teikningum sínum leika þær sér að þeirri mynd sem samfélagið dregur upp af kvenmönnum og kvenmannslíkamanum; þeim kröfum, þankagangi, sársauka og fegurð sem er ítrekað otað að einstaklingum samfélagsins. Þetta eru þeir sameiginlegu þræðir sem binda annars ólík myndverk þessara tveggja myndlistamanna.

D.Íris Sigmundsdóttir (fædd 1976) útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri vorið 2011. Verk hennar eru ?collage? verk eða klippimyndaverk sem unnin eru með blandaðri tækni þar sem blaðaúrklippum, gouache litum, penna og blýantsteikningum, ýmiskonar efni og öðru tilfallandi er blandað saman til að skapa heildarmyndina. Hertha M.R Úlfarsdóttir (fædd 1983) leggur stund á kynjafræði við Háskóla Íslands ásamt því að vera starfandi myndlistamaður og skáld. Helstu miðlar eru innsetningar og teikningar með bleki, vatnslitum og blýanti.

Sýningin stendur til 31. mars og er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-16.        Aðgangur er ókeypis.