Samspil

7. júlí til 29. júlí 2012

Sjónlistamiðstöðin kynnir samspil tveggja þekktra nafna í hagvirkri myndsköpun, þeirra Sigríðar Ágústsdóttur og Ragnheiðar Þórsdóttur. Báðar hafa þær helgað sig listagyðjunni og útbreiðslu á fagnaðarerindi hennar með sköpun, kennslu og virkri þátttöku í menningarlífi bæjarins, en þó eftir ólíkum leiðum. Ragnheiður hefur einbeitt sér að rauða þræðinum í listinni, ef svo má segja, og sýnir hér ofin verk sem gjarnan eiga sjónrænar rætur að rekja allt aftur til landnáms og teygja sig æðruleysislega inn í hamagang og sundurlyndi 21. aldar, en undir það síðasta hefur röggvarfeldurinn átt hug hennar allan. Sigríður heldur sig hins vegar við brothættara svið hlutveruleikans, leirkerasmíðina, og eru verk hennar einföld og sígild að formi og bera með sér andblæ sem við þekkjum vel úr íslenskri náttúru; lágmælta tóna svarðar og foldar sem framkallast á yfirborðinu við reykbrennslu.