Norðlenskir listamenn - Sumar

Samsýning norðlenska myndlistarmanna
Sumar
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús
10. júní - 27. ágúst

Í Eyjafirði er að finna fjölmennasta samfélag listamanna utan höfuðborgarsvæðisins. Akureyri hefur lengi verið miðpunktur menningarlífs á svæðinu, en undir lok 20. aldar fékk myndlistin aukið vægi, þegar bærinn eignaðist bæði myndlistarskóla og listasafn. Báðar þessar stofnanir hafa haft mikil áhrif á myndlistarlíf í bænum, skólinn með því að mennta börn og upprennandi listamenn, og safnið með því að auka sýnileika þeirra myndlistarmanna sem starfa á Akureyri og í nágrenni.

Listasafnið á Akureyri efnir nú í annað sinn til viðamikillar sýningar á verkum myndlistarmanna sem eru starfandi á Norðurlandi eða hafa sterk tengsl við svæðið. Að þessu sinni er bæði árstíminn og sýningarrýmið annað, þ.e. sumar en ekki haust og Ketilhúsið hýsir sýninguna sökum framkvæmda í aðalsýningarými Listasafnsins. Í janúar síðastliðnum auglýsti Listasafnið eftir umsóknum um þátttöku og alls bárust yfir 100 verk. Sérstaklega skipuð dómnefnd valdi verk eftir 21 listamann, en hana skipuðu Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Joris Rademaker, myndlistarmaður, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, og Ólöf Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Myndlistarmenn: Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru: Aðalsteinn Þórsson, Arnar Ómarsson,  Auður Lóa Guðnadóttir, Auður Ómarsdóttir, Árni Jónsson, Bergþór Morthens, Björg Eiríksdóttir, Brynhildur Kristinsdóttir, Erwin van der Werve, Helga Björg Jónasardóttir, Hertha Richardt Úlfarsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Jonna (Jónborg Sigurðardóttir), Jónína Björg Helgadóttir, Karl Guðmundsson, Magnús Helgason, Rebekka Kühnis, Sara Björg Bjarnadóttir, Sigríður Huld Ingvarsdóttir, Snorri Ásmundsson og Svava Þórdís Baldvinsdóttir Júlíusson.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.