...úr rústum og rusli tímans

Jón Laxdal Halldórsson
…úr rústum og rusli tímans
Listasafnið á Akureyri, 16. janúar - 13. mars

Jón Laxdal Halldórsson (f. 1950) nam heimspeki við Háskóla Íslands og
gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974. Jón var einn þeirra sem stóðu að
blómlegri starfsemi Rauða hússins á Akureyri og setti þar upp sína fyrstu
einkasýningu árið 1982. Klippimyndir hafa verið hans helsta viðfangsefni
allar götur síðan. Verkum Jóns má lýsa sem ljóðrænni naumhyggju en þau
spanna í raun mun víðara svið. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum
sýningum víðs vegar um heim og þau er að finna á fjölda safna.

Á sýningunni …úr rústum og rusli tímans má sjá verk frá löngum ferli Jóns
Laxdal Halldórssonar sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum
sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

Í tilefni af sýningu Jóns Laxdal var gefin út viðtalsbókin … úr rústum og rusli tímans … þar sem Guðbrandur Siglaugsson ræðir við Jón. Texti bókarinnar er þýddur yfir á ensku, hollensku, grísku og latínu. Um vinnuna segir Guðbrandur: „Þó svo einfalt virðist er það ekki áhlaupaverk að skrifa texta í kver eins og það sem út kemur í tilefni sýningarloka Jóns Laxdal Halldórssonar. Upphaflega var ætlunin að samtal okkar færi fram í góðu tómi, sem það reyndar gerði, og úr nægu væri að moða og orðin röðuðu sér einfaldlega af sjálfsdáðum. Einatt verður svo endir annar á en upp með er lagt. Útkoman er þessi. Traustlega útfært umbrot Aðalsteins Svans Sigfússonar, elja prentara og þýðenda auk liðlegheita starfsfólks Listasafnsins á Akureyri gerir þetta kver að því sem það er.“

HÉR má sjá bókina á rafrænu formi en hún er til sölu á 1.500 kr. í móttöku Listasafnsins, Ketilhúss.