Eldur og saga, 1985


Joan Jonas

Eldur og saga, 1985 / Volcano Saga, 1985
Listasafnið á Akureyri, 29. október 2016 - 8. janúar 2017

Joan Jonas (f. 1936) er frumkvöðull á sviði vídeó- og gjörningalistar og einn þekktasti myndlistarmaður samtímans. Hún vinnur enn ötullega að sköpun nýrra verka, nú um fimmtíu árum eftir að hún hóf að sýna verk sín í heimaborginni New York í Bandaríkjunum. Joan hefur haft víðtæk áhrif á samferðamenn sína, verk hennar hafa verið sýnd í helstu listasöfnum heims og hún hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna. Hún starfar sem prófessor við MIT (Massachussetts Institute of Technology) og hefur kennt þar frá árinu 1998. Jonas var fulltrúi Bandaríkjanna á Feneyjatvíæringnum árið 2015.

Joan kom til Íslands á níunda áratug liðinnar aldar og skiluðu áhrifin af þeirri heimsókn sér m.a. í verkinu Volcano Saga, sem sjá má hér á þessari sýningu. Þar finnur áhorfandinn beina skírskotun til Laxdælu, sem rekur sig eftir verkinu eins og rauður þráður og var forleikur að fleiri verkum Joan byggðum á íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum.

Joan er meðal þeirra fyrstu sem notuðu myndbandsupptökuvél í þágu listarinnar. Hún kynntist þessari nýju tækni í Japan árið 1970 þegar fyrstu handhægu upptökuvélarnar voru nýkomnar á markað. Hún hafði þá stundað höggmyndalist í nokkur ár og unnið með danshöfundunum Trishu Brown og Yvonne Reiner. Auk þess setti hún gjörninga á svið, þar sem hún notaði spegla á margslunginn hátt til þess að brjóta upp einhliða skynheim áhorfandans og beina athygli hans í margar áttir samtímis. Grundvöllur listsköpunar Joan hefur ætíð verið einfaldur þótt útkoman sé margslungin og marglaga. Á milli þess sem hún skundar um myrkvað sviðið – sviðsmyndina byggir hún gjarnan upp með því að varpa mynd á tjald - teiknar hún myndir beint á vegg og framkallar ýmis hljóð með bjöllum, pappírsskrjáfi og áslætti. Þannig líður verkið áfram eins og fljót sem kvíslast að ósi. Áhorfandinn þarf að hafa sig allan við til þess að fylgjast með atburðarásinni sem á sér stað víðsvegar um sviðið.  

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.