Gísli B. - Fimm áratugir í grafískri hönnun


Hér er á ferð yfirlitssýning Gísla B. Björnssonar, Gísli B. ? Fimm áratugir í grafískri hönnun, en Gísli er einn atkvæðamesti grafíker íslenskrar hönnunarsögu. Hann setti á fót auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar eftir nám í Þýskalandi 1961 og ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands. Gísli hefur kennt óslitið í fimm áratugi og verið óþreytandi í því að efla fagmennsku og brýna fyrir nemendum að sýna ábyrgð í verki. Hann hefur komið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi og búið til mörg af þekktustu vörumerkjum landsins. Má þar nefna merki Sjónvarpsins, Norræna félagsins og Hjartaverndar. Gísli er undir sterkum áhrifum módernisma 20. aldar með áherslu á einfaldleika, notagildi og hagkvæmni.

Á sýningunni er horft yfir feril Gísla og gefur að líta verk frá námsárum hans, tímarit, bókakápur og umbrot og hönnun bóka. Sýnd eru gömul myndbrot af auglýsingastofu Gísla þar sem tækni þess tíma gefur innsýn í vinnu teiknarans og hugmyndasmiðsins.

Sýningin kemur frá Hönnunarsafni Íslands og er opin alla daga nema mánudaga kl. 10-17. Sýningarstjóri er Ármann Agnarsson. Aðgangur er ókeypis.