Vor

Samsýning norðlenskra myndlistarmanna
Vor
Salir 09 / 10 / 11
18. maí - 29. september 2019 

Listasafnið á Akureyri setur nú í þriðja sinn upp sýningu á verkum norðlenskra myndlistarmanna. Að þessu sinni valdi dómnefnd verk eftir 30 myndlistarmenn sem sóttu um þátttöku í sýningunni. Það er ekki alltaf auðvelt val því mörg góð verk stóðu til boða eftir alls 55 listamenn. 

Áhugavert er að sjá hversu fjölbreytt og ólík verk listamennirnir hafa gert. Hér gefur að líta málverk, skúlptúra, vídeóverk, ljósmyndir, lágmyndir, textílverk, bókverk og teikningar. Niðurstaðan er þverskurður af því sem norðlenskir listamenn eru að fást við en auðvitað aðeins ein útgáfa af mörgum mögulegum. 

Fjölbreytnin er í sjálfu sér jákvæð og spennandi, ólíkir stílar og aðferðir, mismunandi hugmyndir og efniviður. Úr verður samsýning þar sem ólík verk kallast á og nýjar tengingar verða til. Einn kosturinn við sýningar eins og þessa er að þar er rými fyrir uppgötvanir. Til sýnis eru verk eftir listamenn sem ekki hafa verið áberarandi en á sama tíma ný verk eftir vel þekkta listamenn, yngri og eldri.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.