Opnunarávarp 14.08.99


Opnunarávarp Hannesar Sigurðssonar, forstöðumanns Listasafnsins á Akureyri, 14. ágúst 1999.

Góðir gestir,

þar sem þetta er fyrsta sýningin undir minni stjórn sem nýráðins forstöðumanns Listasafnsins á Akureyri, langar mig til að fara nokkrum almennum orðum um myndlistina og stöðu hennar í dag

Hvað er myndlist? Hvað er þetta undarlega fyrirbæri menning og listir sem virðist svo plássfrekt í samfélagi okkar en þykir þó harla léttvægt í samanburði við efnahags- og atvinnumálin. Mjúku málin svokölluðu eru í fyrsta sæti á tyllidögum en í því neðsta þegar kemur að kosningum. Sumir bregðast við listinni með því að setja sig í hátíðlegar stellingar. Aðrir reyna að leiða hana hjá sér. Og enn aðrir bregðast ókvæða við sé hún ekki nákvæmlega eftir þeirra hugmyndum um hvernig hún eigi að vera, líkt og að þeim væri persónulega vegið. Enginn virðist skoðanalaus þegar kemur að þessu dularfulla fyrirbæri. Þar sem ég er listfræðingur kemur ósjáldan fyrir að ég er beðinn um að útskýra út á hvað myndlistin gangi, sérstaklega þessi skrýtna og óskiljanlega sem sumum þykir vera hvorki fugl né fiskur. Innst inni eru þó flestir með það á tæru og láta ekki einhverja fræðinga telja sér hughvarf, enda náttúrlega bara spurning um persónulegan smekk hvers og eins. Og hann ber að sjálfsögðu að virða engu síður en lýðræðið. Listirnar eru fyrst og fremst huglægt fyrirbæri eins og svo margt annað í okkar þjóðfélagi. Vera má að fiskurinn í sjónum sé okkar grunnatvinnugrein en hvernig þjóðin eyðir þeim verðmætum sem fyrir hann fást er hins vegar að mestu leyti byggt á huglægum gildum. Hvort við borðum fisk eða pizzu eða pizzu með fisk er háð smekk okkar á hverjum tíma á svipaðan hátt og svo margar aðrar dægurflugur. En undir öllu neyslusamfélaginu renna mun dýpri og meira seigfljótandi tískustraumar, hin svokallaða þjóðarvitund.

Hvað er þá myndlist? Eða réttara sagt hvers konar huglægt fyrirbæri er það og með hvaða hætti snerta listirnar efnahags- og atvinnumálin margumræddu, svo ekki sé minnst á mennta- og skólamálin. Myndlist er að sjá. Að sjá, andstætt því að rata blindandi, er að hugsa. Að hugsa er að vera til. Listirnar hafa löngum skilgreint heildarvitundina, það hver við erum - fyrir hvað við stöndum sem þjóð? Þær eru vopn sjálfstæðrar hugsunar á allt það sem að okkur er haldið. Að geta tekist á við þá alþjóðlegu strauma sem gegnsýra umhverfi okkar og hugsun er ekki einvörðungu lífsspursmál fyrir hverja þjóð, hvert bæjar- og sveitarfélag, slíkt vopn gerir okkur að kraftmeiri einstaklingum. Og grunneiningin einstaklingur er stóra spurningin sem allt snýst um. Einstaklingurinn í heildinni og heildin sem sjálfstætt afl. Hvers konar ímynd hefur Akureyrarbær? Hvað vilja akureyringar að bærinn standi fyrir? Margir virðast vera á þeirri skoðun að myndlist sé bara eitthvað til að prýða veggi eða setja á stall, eitthvað fallegt til að gleðja augað. Það er vissulega einn angi hennar, en myndlistin er víðtækara fyrirbæri en svo að hún snúist einvörðungu um fallegar skreytingar. Allt sem er sýnilegt og gert er af manna völdun tilheyrir í raun og veru sviði myndlistarinnar, hvort sem um er að ræða arkitektúr, auglýsingar, leturgerð, hönnun, tísku og jafnvel hárgreiðslu. Segja má að hin frjálsa myndlist sé drottning og ættmóðir þessarar máttugu sjónlListirnar hafa alltaf risið hæst í gegnum tíðina þar sem mestur uppgangur hefur verið og slíkir þéttbýliskjarnar laða enn til sín athafnaskáld og hæfileikafólk úr öllum áttum. Á dögum Periklesar í Athenu til forna var grunnurinn lagður að vestrænni menningu, þá komu og Rómverjar og Rómarborg, Flórens á endurreisnartímanum, Madrid á gullöld Spánverja, Amsterdam á nýlendutíma Hollendinga, Lundúnir, París og New York eftir síðari heimsstyrjöld. Hér á landi á svipuð þróun sér stað núna í Reykjavík. Listirnar, ekki hvað síst myndlistin, gengdi lykilhlutverki við að skapa þessum borgum þá sterku ímynd sem þær hafa. Myndlistarmenn og arkitektar, sem áður fyrr var vanalega ein og sama stéttin, bjuggu til kirkjur og hallir, málverk og höggmyndir. Páfar og konungar notuðu myndlistina til að sveipa sig ljóma og varpa ljósi á himneskar víddir. Borgarastéttin notaði hana til að staðfesta tilveru sínu eftir frönsku byltinguna, Stalín og Hitler til að ná heimsyfirráðum. Segja má að brautryðjendur íslenskrar myndlistar ásamt þjóðskáldunum hafi verið nokkurs konar auglýsingastofa sjálfstæðisbaráttunnar; þeir undirstrikuðu sérstöðu okkar sem Íslendinga. Þórarinn B. Þorláksson, Ásgrímur og Kjarval gerðu þjóðinni að vissu leyti kleift að nema landið upp á nýtt í andlegum skilningi.

Til að koma til móts við valdastrúktúr borgarastéttarinnar og lýðræðisins leysti myndlistin sig upp í hönnun, arkitektúr, bíómyndir, teiknimyndir og auglýsingar. Hennar frjálsa svigrúm og tilraunastofa var annars vegar skilið eftir í höndum margvíslegra listhöndlara og hins vegar í formi safna sem ríki og sveitarfélög um allan heim tóku að reka í stórum stíl upp á eigin spýtur. Af hverju rekur Akureyrarbær eigið listasafn? Listasöfn staðfesta tilverurétt þjóða, þau staðfesta mikilvægi einstakra borga og bæja. Og þau gera miklu meira - söfnin gera borgirnar meira spennandi og eftirsóknarverðari í augum allra hugsandi manna þegar best tekst til. Þau skapa ákveðna áru eða ímynd og gefa til kynna að fleira en brauðstritið eitt sé í boði. Fyrir ungt og metnaðarfullt fólk í leit að örvun og nýjum tækifærum getur slíkt haft úrslitaþýðingu um hvar það ákveður að taka sér bólfestu í framtíðinni.

Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hvað sjónlistirnar leika stórt hlutverk í okkar nútímasamfélagi. Hvers konar hönnun og auglýsingagerð er að miklu leyti í höndum myndlistarmanna, sem margir hverjir sjá sér þannig farborða. Þegar fyrstu faglegu auglýsingastofurnar tóku til starfa á Íslandi í byrjun sjöunda áratugarins þótti viðskiptavinum þeirra næstum nóg að greiða fyrir með blómvendi. Í dag velta níu stærstu auglýsingastofurnar rúmum fimm milljörðum króna. Líkt og framsækin vísindi hefur hin frjálsa myndlist ekki gróðavonina eina að leiðarljósi, enda fæst hún við flóknari hluti en að reyna að selja okkur bíla eða gosdrykki. Söfn og gallerí eru eins konar rannsóknarstofur myndlistarmanna þar sem þeir birta niðurstöður sínar, og margt af því sem þeir hafa fundið upp hefur seinna meir fengið hagnýtt gildi. Söfnin eru skjólshús fyrir þær mannlegu athafnir og hugsun sem ella gætu hvergi annars staðar fengið útrás í okkar markaðsvædda samfélagi.