Töfraskógur forma og lita


R
ósa Sigrún Jónsdóttir
Svelgir
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús
17. janúar 1. mars

Nú stendur yfir sýning Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, Svelgir, í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Þar sýnir Rósa feiknastóra prjónaða/heklaða skúlptúra í sal og á svölum hússins og vídeóverk með sérsaminni tónlist belgíska hörpuleikarans Sophie Schoonjans. Sophie tók verkið upp á heimili sínu þar sem hún spilaði sjálf á hörpu og sonur hennar á rafmagnspíanó. Tónlistin gefur allri sýningunni einhvern angurværan blæ.  Í vídeóinu sjáum við listakonuna ásamt hópi kvenna ganga um í tómu rými, íklæddar hekluðum hólkum/svelgjum. Þetta eru fyrstu drögin að skúlptúrunum í salnum en gefa áhorfandanum ráðrúm til margskonar hugleiðinga, m.a um hinar andlitslausu sívinnandi konur og er þar vísað til formæðra okkar sem aldrei féll verk úr hendi og voru í raun fjötraðar við vinnuna. 

Handverk, þjóðbúningar og búrkur

Önnur hugleiðing er handverk og þjóðbúningar og margir leiða líka hugann að umræðum um „búrkur“ og trúarbrögð. Sumir horfa þó bara á konurnar í vídeóinu sem hreyfanlega skúlptúra og sjá fyrst og fremst form og liti. Eitt af því sem gerir Ketilhúsið að eftirsóknarverðu sýningarými er möguleiki þess að sjá verkin bæði frá gólfi salarins og einnig ofan frá, frá sýningarrýminu á svölunum.

Þegar Rósa er spurð um tildrög sýningarinnar svarar hún því til að ræturnar liggi í uppeldinu og fyrirmyndunum; mæðrum og ömmum sem hekluðu og prjónuðu alltaf þegar tækifæri gafst. Sjálf er Rósa einnig mikil handverksmanneskja og hefur frá útskriftinni frá LHÍ 2002 unnið margar innsetningar þar sem oftar en ekki eru handgerðir hlutir teygðir og togaðir um rýmið eða hanga niður úr loftinu. Undirliggjandi þema er kynjamismunun og mikil vinnusemi kvenna sem oft var litið á sem óæðri vinnu karla.

Töfraskógur forma og lita

Kveikjan að Svelgjunum er formræn og táknræn samsvörun náttúrunnar.  Rósa er mikil útivistarmanneskja og fjallgöngugarpur og segir að í ferðum sínum upp á jökla hafi hún orðið fyrir sterkum áhrifum af sprungum og holum sem vegna þyngdarlögmálsins soga til sín þá sem koma of nærri, eins og einhverskonar svelgir. Hún sér samsvörun með þessu og handverkinu sem dregur til sín og gleypir. Handverkið er unnið af um 16 prjónakonum sem byrjuðu að vinna efnið (prjónaskapinn) í lok ágúst 2014 undir stjórn Rósu sem hafði áður hannað form og liti svelgjanna. Vegna þyngdarlögmálsins teygist með tímanum á hluta garnsins sem notað er og „svelgirnir“ lengjast, formið tognar og því er sérstök ástæða til að koma oftar á sýninguna og sjá smávægilegar breytingar. 

Skúlptúrarnir eru festir með marglitum böndum í veggi Ketilhússins. Ungir áhorfendur sem koma í safnfræðslu ráða sér ekki fyrir kæti þegar þeir koma í þennan töfraskóg forma og lita og þó að það sé alveg bannað að snerta verk á sýningum þá er ekki hægt að banna slíkt þarna þar sem það er svo mikilvægur þáttur af heildarupplifuninni, ekki síst fyrir börnin.  Þau eru búin að kasta sér í gólfið á augabragði og mæna upp undir verkin til að sjá þau frá sem flestum sjónarhornum. Sýningin vekur þannig sterk, jákvæð viðbrögð þeirra og hjá sumum fæðast ýmsar vangaveltur um verkfræðileg vandamál tengd uppsetningu. Formin, litirnir og efniviðurinn (garnið) og tónlistin virka sterkt á skynfæri barnanna. Með lokuð augu reyna þau að greina tónana og á hvaða hljóðfæri er spilað. Börnin fá svo að teikna það sem þau upplifa á sýningunni og atorkan er ekki minni en hjá prjónakonunum. 

Margbreytileiki í prjóni og hekli

Umfang Svelgjanna gjörbreytir rýminu og tilfinningunni í Ketilhúsinu. Þó hlutverk svelgja sé að gleypa og kannski ekki alltaf það sem þeim er ætlað, þá virkar þessi sýning þannig á marga áhorfendur og þeir hrífast af stærðinni, umfanginu, margbreytileikanum og möguleikunum sem felast í prjóni og hekli.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir,
fræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri.

Sýningin stendur til 1. mars og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.