Allt til enda: Listvinnustofa með Þykjó

Þriðja og síðasta listvinnustofan undir yfirskriftinni Allt til enda verður haldin 14.-15. maí næstkomandi. Að þessu sinni er börnum í 1.-4. bekk boðin þátttaka í listvinnustofu með hönnunarteyminu Þykjó, sem þær Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningarhönnuður, og Sigurbjörg Stefánsdóttir, fatahönnuður og klæðskeri, skipa. Sem fyrr er ekkert þátttökugjald, en skráning nauðsynleg á heida@listak.is

Í listvinnustofunni fá börn tækifæri til að búa til sína eigin búninga. Innblásturinn er sóttur úr óvæntum áttum frá safngripum Listasafnsins og þátttakendur læra að finna gull og gersemar úr endurnýttum efnalager. Vinnustofan veitir innsýn í sníðagerð og skapandi textílvinnu sem miðar að því að börnin eignist sinn eigin búning sem getur orðið uppspretta ímyndunarleikja. Í lok vinnustofunnar setja þátttakendur verkin sín upp á sýningu í Listasafninu, sem þau sjálf skipuleggja. Sýningin stendur til 5. júní 2022.

Ninna Þórarinsdóttir hannar fjölbreytt leikföng, myndskreytir bækur og byggingar og hefur leitt skapandi smiðjur fyrir börn síðustu ár. Sigurbjörg Stefánsdóttir hefur hannað og saumað búninga fyrir leikhús, óperur, bíómyndir og sjónvarpsþætti. 

Allar nánari upplýsingar veitir Heiða Björk Vilhjálmsdóttir í netfanginu heida@listak.is eða í síma 892-0881.

Allt til enda er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Akureyrarbæjar og Barnamenningarsjóðs Íslands.