Fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins
Jessica Tawczynski.

Þriðjudaginn 24. september kl. 17-17.40 heldur bandaríska myndlistarkonan Jessica Tawczynski fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Science, Philosophy and Spirituality of Art. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Í fyrirlestrinum mun Tawczynski fjalla um þær hugmyndir sem liggja að baki vinnu hennar í listinni þ.e. vísindi, heimspeki og andleg hlið listarinnar. Vísindi sem vettvangur könnunar og þekkingarleitar. Heimspeki skilgreind sem verkfæri til að afbyggja og túlka upplýsingar út frá mannlegri reynslu. Andleg hlið listarinnar skilgreind sem hæfni listamannsins til að koma upplýsingum til almennings á þann hátt sem tengist einstaklingnum.

Jessica Tawczynski lauk BFA námi í UMass Lowell og mastersnámi í listum frá MassArt. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga s.s. í Atlantic Gallery í New York, Lowell Massachusetts, Listhúsi í Ólafsfirði, Boston Young Contemporaries, High Rock Tower í New York, Wareham Street Studios í Boston og Shenkar College í Tel Aviv í Ísrael. Tawczynski er fyrsti myndlistarmaðurinn til þess að dvelja í nýrri gestavinnustofu Listasafnsins og verður með opið hús laugardaginn 28. september. Nánar auglýst síðar.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir, fatahönnuður, Halldóra Helgadóttir, myndlistarkona, Arndís Bergsdóttir, safnafræðingur og Natalie Saccu de Franchi, kvikmyndagerðarkona.