Fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins
Sigurður Mar.

Þriðjudaginn 21. september kl. 17-17.40 heldur ljósmyndarinn Sigurður Mar fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Fegurðin í ófullkomleikanum. Þar fjallar hann um aftengingu ljósmyndarinnar við raunveruleikann, en Sigurður hefur glímt við þetta viðfangsefni undanfarin ár. Hann vinnur langt frá hinum ofurskörpu stafrænu myndgæðum, en blandar nútímatækni við aldagamlar aðferðir.

Sigurður Mar Halldórsson kennir ljósmyndun við Menntaskólann á Tröllaskaga. Hann lærði ljósmyndun í Gautaborg og lauk sveinsprófi og hlaut meistararéttindi í sinni iðngrein. Sigurður starfaði við ljósmyndun um árabil, en fyrir áratug lauk hann kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri og sneri sér að kennslu. Þar með fór hann að teygja sitt gamla fag í allar áttir og kanna hversu langt hægt væri að koma ljósmynduninni frá hinum faglegu viðmiðum.

Þetta er fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, sal 12, og er aðgangur ókeypis. Á meðal annarra fyrirlesara eru Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður, Kristinn Schram, dósent í Þjóðfræði, Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar og Rán Flyering, myndlistarmaður. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins.

Meðfylgjandi ljósmynd tók Lára Stefánsdóttir.