Listamannaspjall með Gústav Geir Bollasyni

Listamannaspjall með Gústav Geir Bollasyni
Sandtímasálmur um fölnandi jarðarblóm.

Laugardaginn 11. júní kl. 15:30 verður listamannaspjall með Gústav Geir Bollasyni um sýningu hans Sandtímasálmur um fölnandi jarðarblóm, sem var opnuð fimmtudaginn 2. júní síðastliðinn. Stjórnandi er Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins.

Í sýningartexta segir Shauna Laurel Jones,listfræðingur og umhverfisrithöfundur: „Gústav Geir er einn af mörgum listamönnum veraldarinnar sem beinir sjónum að ástandi vistkerfisins sem við reiðum okkur á, hristir upp í gloppóttri athyglinni og áhugaleysinu, og biður okkur að sjá hvað er að gerast og bregðast við því. Ein mölfluga flögrar varfærnislega niður, niður, niður skjáinn og útúr rammanum, útí tómið, og mig svíður í augun af flöktandi birtunni sem þau halda samt áfram að fylgja, segulmögnuð, árvökul.“