Listasafnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði

Á dögunum var tilkynnt um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands, sem nú veitir styrki til barnamenningar í þriðja sinn frá stofnun sjóðsins. Listasafnið á Akureyri hlaut 1.200.000 kr. styrk fyrir listvinnustofur undir heitinu Allt til enda, sem hófu göngu sína fyrr á þessu ári. Sjóðurinn styrkir 37 metnaðarfull verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 90 milljónir króna. Alls bárust 113 umsóknir og var sótt um rúmlega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 373 milljónir króna.

Snemma á næsta ári verða því haldnar þrjár listvinnustofur undir heitinu Allt til enda. Þar fá börn á grunnskólaaldri tækifæri til að vinna undir leiðsögn kraftmikilla og metnaðarfullra listamanna og hönnuða. Í smiðjunum er áhersla lögð á að börnin taki virkan þátt í öllu sköpunarferlinu, frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í safninu. Leiðbeinendur verða Jón Ingiberg Jónsteinsson, grafískur hönnuður, Þykjó - Sigurbjörg Stefánsdóttir og Ninna Þórarinsdóttir (þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði textíl- , leikfanga og upplifunarhönnunar) og Magnús Helgason, myndlistarmaður.