Nýtt kaffihús tekur til starfa 1. mars

Nýtt kaffihús tekur til starfa 1. mars
Auður B. Ólafsdóttir og Hlynur Hallsson.

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var m.a. komandi starfsár, sýningaskrá ársins 2020 og nýtt kaffihús kynnt. Einnig var farið yfir starfsemi safnsins í heild sinni sem og áframhaldandi samstarf við Icelandair Hotel Akureyri. Í lok fundarins undirrituðu Hlynur Hallsson, safnstjóri, og Auður B. Ólafsdóttir samning um rekstur kaffihúss í Listasafninu. Prentaðri dagskrá ársins var í dag dreift í öll hús á Akureyri.

Kaffihúsið sem mun bera heitið Kaffi og list hefur starfsemi 1. mars næstkomandi. „Ég er mjög spennt og full tilhlökkunar yfir að hefja starfsemi í þessu glæsilega húsi og fá að taka þátt í lifandi starfsemi safnsins og Listagilsins“, sagði Auður við undirritun. „Kaffi og list mun bjóða upp á gott úrval kaffidrykkja úr fyrsta flokks kaffibaunum frá Te og kaffi ásamt öðrum fjölbreyttum veitingum. Hér eru miklir möguleikar á líflegri starfsemi kaffihúss og ekki síst á sumrin þegar hægt verður að taka útisvæðið til notkunar og jafnvel útisvalir Listasafnsins þegar aðstæður leyfa“.

Sýningaárið 2020 hefst á laugardaginn

Sýningaárið 2020 hefst formlega næstkomandi laugardag 1. febrúar kl. 15 þegar alþjóðlega samsýningin Línur verður opnuð. Á sýningunni koma saman átta listamenn frá sex ólíkum löndum og fjórum heimsálfum; Hong Kong, Litháen, Japan, Þýskalandi, Mexíkó og Túnis og „draga línur“. Hluti verkanna er staðbundinn, þ.e. unninn sérstaklega inn í rýmið í Listasafninu á Akureyri. Síðan rekur hver sýningin aðra og á meðal myndlistarmanna ársins eru Snorri Ásmundsson, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Brynja Baldursdóttir, Heimir Björgúlfsson, Arna Valsdóttir og Þorvaldur Þorsteinsson.

Fræðslustarf í stöðugri þróun

Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið, Háskólann á Akureyri og Gilfélagið. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Fræðslustarfið heldur áfram að þróast því fyrir utan almenna leiðsögn, fjölskylduleiðsögn og listvinnustofur tekur Listasafnið nú reglulega á móti fólki með Alzheimer sjúkdóminn í samstarfi við Hlíð – öldrunarheimili Akureyrarbæjar.

Helstu bakhjarlar Listasafnsins á Akureyri eru: Norðurorka, Ásprent, Geimstofan, Icelandair Hotels Akureyri, Rub23 og Stefna.