Orgeltónleikar á laugardaginn

Laugardaginn 22. maí kl. 15 og 16 verða haldnir aðrir tónleikarnir í tónleikaröðinni Tólf tóna kortérið í Listasafninu. Þar koma fram tónlistarmenn og tónskáld búsett á Norðurlandi og bjóða áheyrendum inn í heim framúrstefnu og hljóðtilrauna innan veggja Listasafnsins. Tónleikarnir taka 15 mínútur og verða fluttir kl. 15 og aftur kl. 16. 

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir orgelleikari stígur á svið á laugardaginn og hefur meðferðis hvorki meira né minna en pípuorgel, krakkaorgelið svokallaða. Sigrún Magna hefst handa við að púsla saman orgelinu kl. 14.45 og er öllum sem forvitnast vilja um innviði orgels boðið að fylgjast með þeirri framkvæmd. Hún stillir einnig upp rafmagnspíanói til þess að frumflytja tvö verk eftir Guðrúnu Ingimundardóttur, tónskáld og tónlistarskólastjóra á Húsavík: Serial Romance I og II. Á krakkaorgelið leikur Sigrún Magna Ævintýrið um maurinn og engisprettuna eftir Erland Hildén sem samið er sérstaklega fyrir hið smáa orgel.

Aðgöngumiði að Listasafninu jafngildir miða á tónleikana.