Styðjandi samfélag fyrir fólk með heilabilun

Styðjandi samfélag fyrir fólk með heilabilun
Ljósmynd: Jón Þór Kristjánsson.
Í morgun var haldinn fundur í Listasafninu á Akureyri þar sem Akureyrarbær varð fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hefja vegferð í átt að samfélagi sem er vinveitt og meðvitað um þarfir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra (e. dementia friendly community). Listasafnið á Akureyri leggur sitt á vogaskálarnar og tekur mánaðarlega á móti fólki með heilabilun og veitir þeim leiðsögn og fræðslu um sýningar safnsins. Verkefnið er brýnt, enda má ætla að fjögur til fimm þúsund manns á Íslandi séu með heilabilunarsjúkdóm og má reikna með verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar.
 
Á fundinum í morgun fluttu ávörp Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Eliza Reid forsetafrú sem er verndari Alzheimersamtakanna.
 
Markmiðið að auka þekkingu og draga úr fordómum
 
Gera á einstaklingum með heilabilun kleift að lifa í styðjandi samfélagi sem sýnir þeim og aðstandendum þeirra skilning, virðingu og aðstoðar eftir þörfum. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á heilabilunarsjúkdómum, draga úr fordómum og hjálpa þeim sem eru með heilabilun að eiga innihaldsríkt líf.
Eitt af fyrstu og mikilvægustu skrefunum er að útbúa fræðsluefni og þjálfa leiðbeinendur sem munu í kjölfarið breiða út þekkingu um heilabilun í sinni heimabyggð. Allir sem vilja leggja sitt af mörkum geta óskað eftir því að gerast heilavinir. Þeir bera lítið hjarta í barminum og lýsa sig þannig reiðubúna til að bregðast við ef einstaklingur er í vanda og virðist ekki ráða við aðstæður.
 
Heilabilun ekki eðlilegur fylgifiskur öldrunar
 
Hulda Sveinsdóttir heilabilunarráðgjafi Öldrunarheimila Akureyrar flutti fróðlegt erindi um heilabilun, sem er í raun regnhlífarhugtak yfir um 200 mismunandi sjúkdóma. Suma þeirra er hægt að meðhöndla en ekki alla. Hulda benti á að þótt líkur á heilabilun aukist með hækkandi aldri þá séu slíkir sjúkdómar ekki eðilegur fylgifiskur öldrunar.
 
Sigurbjörg Hannesdóttir, fræðslustjóri Alzheimersamtakanna, sagði frá næstu skrefum í verkefninu og frumsýndi nýtt kynningarmyndband um heilavini og nýja vefsíðu - heilavinur.is - sem opnar í dag. Við lok fundarins útnefndi Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, Elizu Reid fyrsta heilavininn á Íslandi og bæjarstjórn Akureyrar sem fyrstu styðjandi bæjarstjórn á Íslandi. Þar á eftir var öllum fundargestum boðið að gerast heilavinir.
 
Stefnan að safna 5.000 heilavinum
 
Á næstu vikum og mánuðum verður öflug fræðsla á Akureyri, til dæmis fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningafólk, lögreglu og starfsfólk í verslunum, sundlaugum og söfnum, um heilabilunarsjúkdóma og styðjandi samfélag. Síðar á árinu verður haldið námskeið fyrir leiðbeinendur á Norðurlandi og í kjölfarið er stefnan að fjölga styðjandi samfélögum. Markmiðið er að safna 5.000 heilavinum, eða um það bil jafn mörgum og talið er að séu með heilabilunarsjúkdóma á Íslandi.