Þriðjudagsfyrirlestur: Árni Árnason

Þriðjudagsfyrirlestur: Árni Árnason
Árni Árnason.

Þriðjudaginn 16. október kl. 17 heldur Árni Árnason, innanhúsarkítekt, Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Samstarf hönnuða og neytenda. Þar mun hann fjalla um Gilið vinnustofur sem er skapandi rými í Listagilinu þar sem átta einstaklingar í sjálfstæðum rekstri eru með vinnuaðstöðu. Árni er einn af hópnum og mun tala um kosti þess að vinna saman að skapandi verkefnum og um samvinnu hönnuða og neytenda.

Árni Árnason lærði tækniteiknun í Iðnskólanum í Reykjavík, húsgagna- og innanhússhönnun í Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn, hann stundaði nám við Det Kongelige Kunstakademi í Kaupmannahöfn og við Háskólann á Akureyri í uppeldis- og kennslufræðum. Hann vann í Kaupmannahöfn í tvö ár við ýmsa hönnunarvinnu og hjá Slippstöðinni á Akureyri við innréttingahönnun á nýsmíðaverkefnum. Árið 1984 stofnaði Árni ásamt samstarfsaðila arkítektastofuna Form og rak hana til ársins 2007 þegar hann stofnaði Form hönnun sem hann hefur rekið síðan.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins. Næsta fyrirlestur heldur Jóhannes G. Þorsteinsson, tölvuleikja- og hljóðhönnuður og tónlistarmaður.