Þriðjudagsfyrirlestur: Bryndís Snæbjörnsdóttir

Þriðjudagsfyrirlestur: Bryndís Snæbjörnsdóttir
Bryndís Snæbjörnsdóttir.

Þriðjudaginn 28. september kl. 17-17.40 heldur myndlistarmaðurinn Bryndís Snæbjörnsdóttir Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Vísitasíur: Ísbirnir á villigötum. Aðgangur er ókeypis.

Í fyrirlestrinum fjallar hún um myndlist hennar og Mark Wilson. Bryndís mun einnig fjalla um yfirlitsýningu á verkum þeirra sem var opnuð í Gerðarsafni 11. september síðastliðinn og rannsóknarverkefnið Ísbirnir á villigötum, sem er undirstaða sýningar þeirra Mark, Vísitasíur, sem var opnuð í Listasafninu síðastliðinn laugardag.

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson vinna sameiginlega að myndlistarverkum sínum. Í nær 20 ár hafa þau unnið með þverfagleg og rannsóknartengd verkefni sem skoða sögu, menningu og umhverfi ekki aðeins út frá sjónarhorni mannsins heldur einnig annarra lífvera.  Í vinnuferlinu eru þau oft í nánum tengslum við aðra sérfræðinga á viðkomandi sviði, hvort sem það eru fagmenn eða áhugamenn, og beina þannig athygli að menningarlegum breytum og klisjum og tilheyrandi viðhorfum mannskepnunnar gagnvart vistfræði, útrýmingu, verndunarsjónarmiðum og umhverfinu. 

Þó verk Bryndísar og Mark eigi oft rætur að rekja til norður hluta veraldar þá hefur þeim á tíðum verið boðið að vinna verkefni fyrir söfn og stofnanir á alþjóðavettvangi. Sömuleiðis hafa þau sýnt og talað á alþjóðlegum ráðstefnun um allan heim og má finna umfjöllun um verk þeirra á mörgum sérsviðum.  Í byrjun árs 2019 var þeim veittur styrkur frá Rannsóknarsjóði Íslands (Rannís) vegna verkefnisins Ísbirnir á villigötum. Myndlistarverk þeirra eru innsetningar sem unnar eru í hina ýmsu miðla svo sem ljósmyndir, vídeó, texta, teikningar, hluti og hljóð.

Bryndís Snæbjörnsdóttir er prófessor og fagstjóri meistaranáms í myndlist við Listaháskóla Íslands.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar eru: Nándor Angstenberger, myndlistarmaður, Þórður Sævar Jónsson, skáld, Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar, Rán Flygenring, hönnuður, Kristinn Schram, þjóðfræðingur, Sigbjørn Bratlie, myndlistarmaður.