Þriðjudagsfyrirlestur: Kristín Dýrfjörð

Þriðjudagsfyrirlestur: Kristín Dýrfjörð
Kristín Dýrfjörð.

Þriðjudaginn 3. mars kl. 17-17.40 heldur Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hugarflandur í heimi leikskólans.

Í fyrirlestrinum fjallar Kristín um sköpun barna í máli og myndum. Hún tekur dæmi um „samtal“ barna við listir og hvernig listamenn og börn hafa tekist á við svipaðar hugmyndir í gegnum tíðina. Einnig verður fjallað um hlutverk leikskólakennara sem sumir tengja við sviðsfólkið í leikhúsinu. Það virðist ósýnilegt en ekkert leikrit gengur upp nema sviðsfólkið sinni sínu starfi. Slíkt hið sama á við um leikskólakennara. Þeir þurfa að búa yfir þekkingu á þroska barna, leik þeirra og leiðum til sköpunar og þurfa jafnframt að kunna að útbúa umhverfi sem hvetur og styður, en vera á sama tíma gagnrýnir.

Kristín Dýrfjörð er leikskólakennari að mennt, en hefur starfað sem kennari við Háskólann á Akureyri í yfir 20 ár. Sköpun í leikskólum hefur verið henni hugleikin í áratugi. Fyrir um 30 árum síðan leiddi hún eitt fyrsta þróunarverkefni í leikskólum er fjallaði um sköpun og umhverfi. Kristín var einn höfunda hugmyndar um kennslu í vísindasmiðju við Háskólann á Akureyri, en þar er blandað saman hugmyndafræði leikskóla við m.a. listir og vísindi og hefur hún leitt það námskeið frá upphafi.

Þetta er næst síðasti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins en þann síðasta heldur bandaríski myndlistarmaðurinn Kenny Nguyen þriðjudaginn 10. mars. Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.