Þriðjudagsfyrirlestur: Snorri Ásmundsson

Þriðjudagsfyrirlestur: Snorri Ásmundsson
Snorri Ásmundsson.

Þriðjudaginn 18. febrúar kl. 17-17.40 heldur Snorri Ásmundsson, listamaður, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Lífsins listamaður. Þar mun hann fjalla um feril sinn í listinni og lífsreynslu. 

Snorri Ásmundsson hefur stundum verið kallaður „óþekka barnið“ í íslenskri myndlist. Hann vinnur gjarnan með samfélagsleg „tabú“ eins og pólitík og trúarbrögð og hafa gjörningar hans löngum hreyft við samfélaginu. Snorri ögrar félagslegum gildum og skoðar takmörk náungans og sín eigin, en fylgist jafnframt grannt með viðbrögðum áhorfandans. 

Snorri hefur haldið á þriðja tug sýninga, bæði hér á landi og erlendis. Hann hefur vakið athygli um víða veröld og skrifað hefur verið um hann í ýmsum alþjóðlegum listtímaritum og oftar en einu sinni verið gestur í heimsfréttunum. Hann er einn af stofnendum og eigendum Kling og Bang gallerís og Leikhúsi Listamanna. Snorri hefur þrisvar sinnum fengið úthlutað starfslaunum listamanna. Hann hefur einnig fengið hæsta styrk úr Myndlistarsjóði. Honum hefur hlotnast 4 mánuða starfslaun og dvöl í Künstlerdorf Schöppingen í Þýskalandi. 

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Ragnheiður Eríksdóttir, tónlistarkona, Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri, og Kenny Nguyen, myndlistarmaður.