Tónleikaröðin Mysingur hefst á laugardaginn

Laugardaginn 18. júní kl. 17 hefst tónleikaröðin Mysingur í mjólkurporti Listasafnsins á Akureyri. Þar munu koma fram hljómsveitirnar Ólafur Kram og Hugarró. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana.

Hljómsveitin Ólafur Kram sigraði í Músíktilraunum 2021. Sveitin gaf út þröngskífuna „nefrennsli/kossaflens” í lok síðasta árs, sem var plata vikunnar á Rás 2. Hefur plötunni verið lýst sem súrrealísku ferðalagi á milli pönks og drauma þar sem mörkin á milli drauma og martraða eru ekki alltaf skýr.

Hugarró er þriggja manna hljómsveit frá Akureyri, sem komst í úrslit Músíktilrauna 2018. Liðsmenn sveitarinnar spila angistarfulla rokktónlist og gefa ekkert eftir.

Hægt verður að kaupa grillmat og drykki frá Ketilkaffi á tónleikasvæðinu. Aðrir tónleikadagar verða 16. júlí og 27. ágúst. Tónleikaröðin er samstarf Akureyrarbæjar, Ketilkaffis, Geimstofunnar, Listasafnsins á Akureyri, Kjarnafæðis og Kalda.