Tvær opnanir á Akureyrarvöku

Tvær opnanir á Akureyrarvöku
Hrafnhildur Arnardóttir.

Á Akureyrarvöku, laugardaginn 31. ágúst, kl. 15 verða opnaðar tvær sýningar í Listasafninu á Akureyri, annars vegar sýning Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter, Faðmar, og hins vegar sýning Eiríks Arnars Magnússonar, Turnar.

Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter hefur verið búsett í New York frá því hún lauk þar framhaldsnámi í myndlist frá School of Visual Arts 1996.

Sköpunargleði, húmor og áhrif frá dægurmenningu eru rauði þráðurinn í verkum Hrafnhildar. Staðbundnar innsetningar, skúlptúrar og veggverk þar sem efniviðurinn er marglitt gervihár og plast eða blönduð tækni, eru einkennandi fyrir verk hennar síðustu tvo áratugina. Hrafnhildur hefur sýnt í virtum söfnum víða um heim, m.a. í MoMA í New York og Nútímalistasafninu í Brisbane, og verk hennar má sjá í listasögubókum á vegum Phaidon bókaútgáfunnar.

Sýning Hrafnhildar er í rými sem tileinkað er safnkennslu Listasafnsins. Með vísun í ævintýraheima, frjóu ímyndunarafli og leikgleði höfða litrík verkin til barna á öllum aldri og ekki síður til barnsins sem býr innra með fullorðnum.

Hrafnhildur er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019.

Eiríkur Arnar Magnússon útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2007. Hann á að baki fimm einkasýningar og hefur tekið þátt í 13 samsýningum á Íslandi, í Eistlandi og Portúgal. Einnig hefur hann fengist við sýningarstjórn. Hann hefur aðallega unnið fígúratíf málverk en einnig nýtt bækur sem efnivið. Þar hefur hann meðal annars leitast við að upphefja gamalt handbragð og gefa því nýjan tilgang í formi skúlptúr-bókverka.

 „Í öllum mínum verkum vinn ég aðallega út frá þeirri tilfinningu sem ég hef fyrir viðfangsefninu hverju sinni. Þegar ég leita að efnivið fyrir verkin þá leita ég eftir gömlum hlutum með sögu eða þá hlutum sem hafa glatað upphaflegu hlutverki sínu. Að mínu mati er fegurð og saga á bak við bók sem einhver batt saman í höndunum fyrir hundrað árum. Bók sem hefur ef til vill farið víða þar til hún endaði á skurðarborðinu hjá mér, segir Eiríkur Arnar“