Enginn rammi um listina

"Á síðustu árum hef ég unnið svo mikið með ullina í náminu að hugmyndin kom eiginlega af sjálfri sér, " segir Lilý Adamsdóttir aðspurð um bakgrunn fyrstu einkasýningu hennar, Samtvinnað, sem nú stendur yfir í Deiglunni. Þar sýnir hún verk sem unnin eru út frá íslensku ullinni. Lilý vinnur með vef endurtekninga í textíl þar sem skynjun á hreyfingu þráðarins, ljóðræn teikning hans og frásögn eru til skoðunar. Niðurstaða hugleiðinganna birtist í prjónuðum verkum sem bjóða áhorfandanum upp á sjónrænt samtal. Lilý hefur tekið þátt í sýningum og verkefnum hér á landi og erlendis. Í verkum sínum notar hún margskonar aðferðir s.s. gjörninga, vídeó, teikningar, textíl og innsetningar.

Sóknarfæri fyrir aukna ullarvinnslu á Íslandi

Sýningin er ákveðin hugleiðing um ullarhárin og ullina sjálfa og hvert hún getur leitt okkur. Ullarvinnsla á Íslandi er einnig áhrifaþáttur á sýninguna. Að mínu mati er þessi auðlind, sem ullarvinnsla vissulega er, ekki nýtt nægilega vel enda er Ístex eina fyrirtækið sem þvær og spinnur ull. Ég er viss um að tækifæri fyrir ullarvinnsluna eru til staðar og að mínu mati þarf að hugsa dæmið upp á nýtt og nútímavæða vinnubrögðin. Mér finnst tími til kominn að spyrja hvort ekki sé hægt að skapa ný tækifæri til þess að nýta þessa vöru betur. Það er ekki langt síðan að við unnum mun meira úr ullinni og ég verð sorgmædd þegar ég fer á Iðnaðarsafnið og sé allar vörurnar sem framleiddar voru á verksmiðjum Sambandsins á Akureyri hér áður fyrr. Það er sérstaklega sorglegt í ljósi mikilvægi aukinnar sjálfbærni og þess að skoða eftir hvaða leiðum erlendar vörur koma til landsins.?

?Rík af listrænum verkfærum?

Lilý er fædd og uppalin á Akureyri og útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri árið 2005. Að því námi loknu hélt hún til Svíþjóðar og ætlaði sér í háskólanám en kom þess í stað aftur heim til Akureyrar og skráði sig á textílbraut VMA. ?Ég var búin með stúdentsprófið þannig að ég átti bara verklegu þættinu eftir sem voru auðvitað skemmtilegastir,? segir Lilý og hlær. ?Eftir þann vetur skráði ég mig í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan úr myndlist 2011 með barn á brjósti því ég átti mitt fyrsta barn í febrúar en útskriftasýningin var í apríl. Nú stunda ég diplómanám í textíl við Myndlistaskólann í Reykjavík og útskrifast þaðan í vor. Ég hef oft verið spurð hvort það hafi ekki verið skref aftur á bak en svo er alls ekki. Í þessu námi hef ég fengið það sem mér fannst vanta upp á í Listaháskólanum, þ.e.a.s. verknámið og tækniúrvinnsluna. Þar eru nemendur kynntir fyrir textílnum alveg frá grunni og læra  að spinna þráð og nýta hann með handprjóni, vélprjóni, vefnaði og þrykki. Þetta er því víðtækt nám hvort sem litið er til hugmynda- eða tæknivinnu og mér finnst ég orðin mjög rík af verkfærum til þess að vinna hugmyndirnar mínar. Ég útskrifast þaðan í vor og er komin inn í tveggja ára mastersnám í listrænum textíl í Boras í Svíþjóð. Sá bær er þekktur fyrir textíl og frábæra aðstöðu þar sem hægt er að prjóna út frá digital skjölum. ?

-       Hver er stefnan að námi loknu?

?Síðustu árin hef ég æft mig í því að hugsa sem minnst innan rammans - ef svo má segja - því mér finnst það heftandi og ég vil ekki njörva mig niður á einhverjum ákveðnum listrænum stað. Mér leiðist sú sýn þegar listamenn eru settir í einhvern vissan ramma. Ég lít mjög upp til listamanna eins og Þorvaldar Þorsteinssonar því hann var allsstaðar í listinni, en orkan fór einfaldlega á réttan stað hverju sinni. Það er stefna sem ég hef trú á og hentar mér. Ég hef líka samið ljóð og bráðlega verður gefin út mín fyrsta ljóðabók hjá útgáfufélaginu Meðgönguljóðum. ?

Hugleiðing um möguleikana

?Prjón er svo heillandi á margan hátt og þá ekki síst lykkjur prjónsins. Hver lykkja er algjörlega einstök rétt eins og einstaklingurinn í þjóðfélaginu og þegar þær koma margar saman mynda lykkjurnar eina heild sem gengur upp. En þær verða að vera á sínum stað og standa sína vakt sem er ákveðin hugleiðing. Vöfflumunstrið sem ég valdi mér á sýningunni kemur einmitt inn á þær hugleiðingar. Munstrið eru fullt af hólfum sem gefa tilfinningu fyrir möguleikunum en spurningin er í hvaða hólf ætlar maður að hitta?, ? segir Lilý Adamsdóttir.