Síðustu dagar yfirlitssýningar Iðunnar Ágústsdóttur

Framundan eru síðustu dagar yfirlitssýningar Iðunnar Ágústsdóttur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, sem staðið hefur síðan 7. mars og lýkur næstkomandi sunnudag 19. apríl.

Tilefni sýningarinnar er 75 ára afmæli Iðunnar (f. 1939) en hún er fædd og uppalin á Akureyri, dóttir Elísabetar Geirmundsdóttur sem oft er nefnd listakonan í Fjörunni. Iðunn hefur fengist við myndlist síðan 1977 en fyrsta einkasýning hennar var haldin 1979 í Gallerí Háhól. Iðunn var einn meðlima Myndhópsins sem stofnaður var árið 1979 og var hún meðal annars formaður hans og gjaldkeri um tíma. Iðunn vann aðallega með olíuliti og pastelkrít í verkum sínum. Hennar helstu viðfangsefni á ferlinum eru landslagið, náttúran, fólk og hið dulræna. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Flest verka Iðunnar eru í einkaeigu en einnig í eigu ýmissa fyrirtækja og stofnana hér heima og erlendis. Yfirlitssýningin er sú fyrsta sem haldin er á verkum hennar en á sýningunni verður áhersla lögð á olíu og krítarverk hennar. Sýningarstjóri er Eiríkur Arnar Magnússon myndlistarmaður, sonur Iðunnar.

Hér að neðan má lesa grein um sýninguna eftir Guðrúnu Pálínu Guðmundsdóttur sem birtist í Akureyri vikublaði 9. apríl síðastliðinn.

Iðunn Ágústsdóttir Yfirlitssýning
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús
7. mars – 19. apríl

Iðunn Ágústsdóttir sýnir um þessar mundir málverk sín í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Sýningarstjórn annaðist myndlistarmaðurinn Eiríkur Arnar, sonur Iðunnar. Iðunn er dóttir Elísabetar heitinnar Geirmundsdóttur sem þekkt er orðin sem Listakonan í Fjörunni og eru í ár liðin 100 ár frá fæðingu hennar. Listasafnið opnaði í janúar yfirlitssýninu á ævistarfi Elísabetar og síðustu helgi þeirrar sýningar opnaði Iðunn sína sýningu. Þetta er yfirlitssýning á verkum Iðunnar sem verður 75 ára á árinu. Bróðir Iðunnar Ásgrímur Ágústsson ljósmyndari og dóttir hans Elísabet, sem stundar myndlistarnám, opnuðu sömu helgi sýningu  í Deiglunni. Eiríkur Arnar opnaði samtímis sýningu í Mjólkurbúðinni og þar sýndi hann m.a. portrett af móður sinni Iðunni.  Málverkin eru unnin á þann hátt að þau eru klippt í búta sem hann saumar svo listavel saman aftur með sínu forláta handbragði sem ekki er ólíkt því sem við sáum hjá ömmu hans.  Það gerir myndirnar sérlega áhugaverðar hvernig hann leyfir köntunum á málaradúknum að njóta sín sem lýsir þar með upp dökka brúnleita tóna málverkanna og setur inn liti og tilfinningu fyrir rými og landslagi innanum þekkjanlegar andlitsmyndir af Iðunni. Á einni myndinni er fóstur; enn einn afkomandi Elísabetar. Myndirnar af móður sinni sem Eiríkur sýnir gefa áhorfandanum færi á að hugsa um eigin mæður og þau minningabrot og upplifanir sem í huganum mynda heild. Tilfinningin sem vaknar við að skoða sýningu Iðunnar er samspil sonar og móður og nálægð hlýju, virðingar og kærleika. 

Nærumhverfið og fegurð hversdagsins 

Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður skrifar greinargóðan texta með sýningu Iðunnar í sýningarskrá. Hvet ég menn til að lesa texta Guðmundar samhliða því að skoða sýninguna. Hann þekkir list hennar vel og bendir á það á áhugaverðan hátt hvernig list sprettur af list. Ný kynslóð nemur af þeirri eldri, foreldrar kenna börnum sínum og þau þróa það áfram. Guðmundur leiðir áhorfandann inn í heim myndlæsis og tekur fyrir eitt málverkanna sem er af þremur börnum í flæðarmáli horfandi á sjóndeildarhringinn. Einhver tregi er þó í annars litaglaðlegri myndinni sem hrífur mig og vekur til umhugsunar um æviskeið Elísabetar og barna hennar þriggja. Sem kunnugt er veiktist Elísabet af banvænum sjúkdómi sem dró hana hægt og bítandi til dauða á níu árum einmitt á þeim tíma sem börnin voru að vaxa úr grasi. Myndin lýsir vel hlutskipti slíkra barna sem ekki vita hvað býður þeirra en horfa á sjóndeildarhringinn og í víðáttur alheimsins. Andlegar og trúarlegar myndir eru hluti af list Iðunnar og sjást þær á svölum Ketilhússins. Iðunn er drátthagur teiknari og hefur m.a. haldið sýningu í Amtbókasafninu á postulíni sem hún málaði og þar naut teikning hennar sín vel og fjölbreytileikinn í efnisvalinu. Framsetningin á verkunum var í návígi við áhorfandann. 

Öryggi heimilisins og mikilvægi 

Myndirnar í sal Ketilhússins eru margar rammaðar inn í stóra þykka gullramma sem tengir þær saman; ytra formið er það sama. Myndirnar eru flestar málaðar með það markmið í huga að fegra umhverfi stofunnar þar sem þær hanga og minna áhorfandann á nærumhverfi sitt og tenginguna við hið góða og fagra í lífinu s.s. landslagið, ævintýrin, blómin og æskuna. Upp í hugann koma hugrenningar um heimilið, stofuna, fjölskylduna og fegurðina í hversdeginum –  gleðjast yfir því sem maður hefur heima og í kringum sig, það sem tilheyrir manni. Þessir þættir verða sterkir í lífi margra þeirra sem missa ungir foreldra sína, annað þeirra eða bæði. Iðunn rak um tíma verslun hér í bæ og það var eftirminnilega heimilislegt og notalegt að koma þar inn og versla við hana hluti til að fegra heimilið. Í Ketilhúsinu sjáum við úrval málverka eftir Iðunni, og auðvelt er þar að sjá á einum stað þróunina í  list hennar. 

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir,
fræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri. 

Sýningin stendur til 19. apríl og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýninguna: 16. apríl kl. 12.15-12.45. Aðgangur er ókeypis.