Bjartsýni og kraftur

Bjartsýni og kraftur
Hlynur Hallsson og Helgi Jóhannesson.

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í gær var dagskrá ársins 2016 kynnt og farið í gegnum komandi starfsár. Í lok kynningarinnar var undirritaður samstarfssamningur Listasafnsins og Norðurorku sem er einn sex bakhjarla safnsins. Það var Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku og Hlynur Hallsson safnstjóri sem undirrituðu samninginn, en hann gildir til þriggja ára. Dagskrá ársins hefur verið dreift í öll hús á Akureyri og hana má sjá HÉR.

Listasafnið á Akureyri heilsar nýju ári með bjartsýni og krafti. Að baki er annasamt ár fjölbreytni, breytinga og nýrra tíma. Fjöldi sýninga af margvíslegum toga dró stóraukinn fjölda gesta til Listasafnsins og ber þar sérstaklega að fagna mikilli fjölgun skólaheimsókna. Fræðsla, fyrirlestrar, leiðsagnir og safnkennsla er meðal þess sem Listasafnið hefur lagt aukna áherslu á undanfarin misseri.

Árið 2016 verður ekki síður líflegt og spennandi þar sem í boði verða samsýningar á verkum ólíkra listamanna, fjölbreyttar einkasýningar og sérstakar þemasýningar. Íslenskir og erlendir listamenn; eldri og reyndari ásamt ungum og upprennandi listamönnum. Þannig ættu allir að fá eitthvað við sitt hæfi.

Fyrir áramót ákvað mennta- og menningarmálaráðherra, með vísan til 1. mgr. 9. gr. safnalaga nr. 141/2011, að fenginni tillögu safnaráðs að Listafnið á Akureyri telst nú viðurkennt safn. Viðurkenndum söfnum ber að starfa í samræmi við ákvæði safnalaga og skilyrði reglugerðar um viðurkenningu safna. Safnaráð hefur lögum samkvæmt eftirlit með safnastarfsemi í landinu. Þessi ákvörðun er sérstakt fagnaðarefni fyrir Listasafnið sem eykur möguleika þess töluvert en leggur því einnig miklivægar skyldur á herðar.

Á döfinni eru miklar breytingar á húsnæði Listasafnsins. Aðstaða fyrir gesti batnar til muna, safnið verður aðgengilegra fyrir hreyfihamlaða og nýir glæsilegir sýningarsalir verða opnaðir sem bjóða upp á mikla möguleika. Í framtíðinni verður boðið upp á fasta sýningu á verkum úr safneigninni sem hægt verður að ganga að sem vísri og gegna mun mikilvægu hlutverki í öllu fræðslustarfi Listasafnsins. Hafist verður handa við endurbætur á þessu ári en ráðgert er að opna nýtt og endurbætt safn á 25 ára afmælisári Listasafnsins, árið 2018.

Þriðjudagsfyrirlestrar verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann, Háskólann á Akureyri og Myndlistarskólann á Akureyri auk þess sem tveir nýir samstarfsaðilar bætast í hópinn: Myndlistarfélagið og Gilfélagið. Þeir eru haldnir á hverjum þriðjudegi yfir vetrartímann.

Sýningarárið 2016 byrjar með þremur opnunum í janúar. Jón Laxdal Halldórsson opnar sýningu í mið- og austursal Listasafnsins þann 16. janúar næstkomandi undir yfirskriftinni …úr rústum og rusli tímans, en þar má sjá verk frá löngum ferli Jóns sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson. Þann 23. janúar verður svo sýningin í drögum / Prehistoric Loom IV opnuð í Listasafninu, Ketilhúsi en þar sýna 27 alþjóðlegir listamenn, þar af sjö íslenskir. Sýningarstjórar eru Elísabet Brynhildardóttir og Selma Hreggviðsdóttir.

Samhliða opnun Jóns Laxdal Halldórssonar mun Samúel Jóhannsson opna sýninguna Samúel í vestursal Listasafnsins og er sú sýning hluti af sýningaröð sem mun standa til 13. mars og innihalda 4 stuttar sýningar. Aðrir sýnendur eru Jonna – Jónborg Sigurðardóttir, Baldvin Ringsted og Noemi Niederhauser.

Á meðal annarra listamanna sem sýna má nefna Gunnar Kr., Thoru Karlsdóttur, Ásdísi Sif Gunnarsdóttur og síðast en ekki síst bandarísku vídeólistakonuna Joan Jonas. Fjölmargar áhugaverðar samsýningar eru einnig á dagskrá ársins s.s. ljósmyndasýningin Fólk þar sem Turner verðlaunahafinn Wolfgang Tillmans verður meðal sýnenda, sumarsýningarnar Nautn og Arkitektúr & Akureyri og einnig Sköpun bernskunnar 2016  þar sem skólabörn og starfandi listamenn fagna vorinu. Gjörningahátíðin A! sló í gegn á liðnu ári og er komin til að vera og einnig mun Listasumar blómstra sem aldrei fyrr.

Helstu bakhjarlar Listasafnsins á Akureyri eru: Ásprent, Flugfélag Íslands, Geimstofan, Rub23, Norðurorka og Stefna.