Dagskrá Listasumars komin út

Dagskrá Listasumars á Akureyri 2015 kom út í dag og var dreift í hvert hús á Akureyri og víðar. Hér má sjá dagskrána í heild sinni.

Listasumar hefst föstudaginn 12. júní, kl. 17 og stendur yfir til 6. september. Á opnuninni mun Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri segja nokkur vel valinn orð, umvafinn handverki kvenna, sem mun prýða Listagilið. Í framhaldinu taka við tvennir tónleikar; annars vegar mun Þjóðlistahátiðin Vaka bjóða upp á síðdegistóna í Deigluna og hins vegar er gestum og gangandi boðið að taka þátt í Tilraunakenndum sólarhring undir merkjum tón- og myndlistarhátíðarinnar Yms, frá kl. 18 til 18.

Yfir 70 atriði eru komin á dagskrá Listasumars og er þá dagskráin alls ekki tæmandi því mögulegt er að bæta við viðburðum allt til loka tímabilsins. Listasumri lýkur með A! Gjörningahátíð sem er nýjasta viðbótin í flóru listahátíða landsins.

Verkefnastjóri Listasumars er Guðrún Þórsdóttir og hægt er að sækja um þátttöku á netfangið gunnathors@listak.is.