Dagur myndlistar

Undanfarin ár hefur Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) staðið fyrir Degi myndlistar þar sem gestum og gangandi er boðið að heimsækja listamenn á vinnustofur þeirra. Þessi kynning á myndlistarmönnum hefur gefist mjög vel og hefur Dagur myndlistar verið árviss viðburður í sífelldri þróun. Árið 2010 var verkefnið sett í fastari ramma og umfangið aukið.

Dagurinn er hugsaður sem vitundarátak með það að markmiði að auka þekkingu landsmanna á starfi íslenskra myndlistarmanna. Á Íslandi starfar fjöldi listamanna og erfitt er að leggja fingur á hversu margir þeir eru en til viðmiðunar má benda á að félagsmenn SÍM eru yfir 700 talsins. Flestir myndlistarmenn búa yfir háskólamenntun en margir vinna jafnframt við fleiri störf en bara myndlistina til að fleyta fram lífið. Á Degi myndlistar gefst því fólki tækifæri til að skyggnast inní þetta flókna líf myndlistarmannsins með því að kom í heimsókn á vinnustofur þeirra. Eins er hægt að nálgast þann heim úr hæfilegri fjarlægð með aðstoð internetsins hér, þar sem líta má á stutt innlit á vinnustofur íslenskra myndlistarmanna.

Í kjölfar Dags myndlistar býður SÍM öllum grunn- og framhaldsskólum landsins upp á kynningu myndlistarmanna í skólunum þeim að kostnaðarlausu. Markmið þeirra er að kynna starf myndlistarmannsins fyrir nemendum og auka þannig skilning á myndlist sem starfsgrein. Þessar kynningar hafa farið einstaklega vel fram og hafa margir skólar gert þær að árlegum viðburði innan skólastarfsins.