Dansað gegn ofbeldi

Föstudaginn 19. febrúar kl. 11.45-12.45 verður dansað gegn ofbeldi í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Milljarður rís 2016. Í ár er dansað fyrir konur sem eru á flótta og leggja líf sitt að veði í leit að öruggara lífi fyrir sig og börnin sín.

Þetta er í fjórða sinn sem viðburðurinn er haldinn og hafa hátt í 10 þúsund manns komið saman síðastliðin fjögur ár og fylkt liði á dansgólfum landsins. Í ár verður dansinn stiginn í Reykjavík, Reykjanesbæ, Neskaupstað og á Höfn í Hornafirði, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. 

Milljarður rís er einn stærsti viðburður í heimi og er haldinn í samstarfi Sónar Reykjavík. Í fjórða sinn sameinast yfir 200 lönd þar sem milljarður karla, kvenna og barna koma saman fyrir hugrakkar konur um allan heim sem berjast gegn mótlæti, óréttlæti og misbeitingu í daglegu lífi. Með dansinum er sýnd samstaða um réttlæti og fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra. 

UN Women á Íslandi skora á alla til að mæta með dansinn að vopni og Fokk ofbeldi húfuna á höfðinu. Húfuna er hægt er að kaupa á 3.900 kr. í verslunum Eymundsson um allt land. Ágóðinn rennur til verkefna UN Women á landamærastöðvum í Evrópu.

Aldrei hafa fleiri konur verið á flótta frá því við lok seinni heimstyrjaldar. Þær eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi, mansali og kynlífsþrælkun. Um 500 þúsund konur og börn flýja nú heimalönd sín og leggja leið sína til Evrópu. Talið er að 12% þeirra séu barnshafandi og hefur gríðarleg aukning orðið á mæðradauða síðan flóttamannavandinn hófst. Konur og stúlkur á flótta eiga í stöðugri hættu á að vera beittar ofbeldi, kynferðislegri misnotkun eða mansali.

Missum ekki af stærstu dansveislu heims – mætum í Listasafnið, Ketilhús og sýnum samstöðu.

HÉR má skrifa undir stuðningsyfirlýsingu.