Draumahöll í Listasafninu, Ketilhúsi

Draumahöll í Listasafninu, Ketilhúsi
Lára Sóley.

Laugardaginn 13. júní kl. 14 og 16.30 verður boðið uppá tónlistardagskrá í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi þar sem Lára Sóley og Hjalti Jónsson munu flytja efni af vögguljóðaplötunni Draumahöll sem er nýútkomin. Lára leikur á fiðlu og syngur, en Hjalti leikur á gítar. Flutt verður blanda af íslenskum og erlendum lögum, þar af þrjú ný lög og textar.

Draumahöll er vögguljóðaplata sem ætluð er ungum börnum, en hentar þó öllum aldri. Tónlistin, sem er sungin, leikin á fiðlu og píanó er angurvær og látlaus. Á plötunni er að finna 14 lög sem fléttast saman í eina heild með spunnum stefjum. Um er að ræða blöndu af íslenskum og erlendum lögum, þar af eru þrjú ný lög og textar. Titillag plötunnar, Draumahöll, er samið af Láru Sóleyju, Augnablik sem þetta er eftir Einar Örn Jónsson og Brosið þitt er lag Hjalta Jónssonar við texta Láru Sóleyjar.

Með plötunni vill Lára Sóley hvetja foreldra og þá sem starfa með börnum til þess að halda tónlist að börnum, syngja fyrir þau og með þeim. Af því tilefni hefur Lára ákveðið að gefa eintak af plötunni á allar deildir leikskóla Akureyrarbæjar og Norðurþings. 

Sýningin Sköpun bernskunnar stendur nú yfir í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi og er hún afar viðeigandi umgjörð fyrir þessa tónleika, en henni lýkur næstkomandi sunnudag.