Einu sinni er...

Einu sinni er ...

Guðrún Vera Hjartardóttir og JBK Ransu eru myndlistarmenn með langan feril að baki. Þau eru líka hjón og eiga saman þrjú börn. Í Listasafninu á Akureyri sýna þau verk sín tvö saman í fyrsta sinn. Titill sýningarinnar Einu sinni er? er viðeigandi fyrir verk þeirra beggja, þótt á ólíkan hátt sé.

Guðrún Vera Hjartardóttir hefur um árabil unnið að fínlegum höggmyndum sínum úr leir, myndir hennar af mannslíkömum og forvitnilegum verum eru mörgum kunnar. Í verkum hennar birtist viðkvæmni mannslíkamans og mannlegrar tilvistar á áleitinn hátt. Líkaminn, náttúran og andleg tilvist renna saman í eina heild, verurnar birtast í leir en tilvist þeirra er andleg engu að síður.

Guðrún Vera hefur kynnt sér kenningarfræði og mannspeki Rudolfs Steiner. Þróunarkenning Steiner er henni hugleikin en hún byggir m.a. á þeirri hugmynd að frumstig manneskjunnar eigi uppruna sinn í skynfærum sem mótast utan líkamans, í varma himintunglanna, áður en efnislíkaminn tekur á sig mynd. Hér kemur fram sterk áhersla á skynjunina sem slíka,? sjón, heyrn, lykt, bragð og snertingu. Snertingin er sjálfsagður og áþreifanlegur hluti af leirmyndum Guðrúnar Veru, sjá má hvernig hendur listakonunnar skilja eftir sig mót í leirnum.

Einu sinni er? gefur til kynna að hið liðna sé enn til staðar, fortíð og nútíð eru eitt í huga okkar. Lífið sjálft, í sínu endalausa ferli varðveitir fortíðina, birtist í núinu og í sömu andrá erum við okkur meðvituð um óhjákvæmilega framtíð.


Í verkinu Vídeóljóð móta hendur listakonunnar leirinn í sífellu, sjón og snerting vinna saman. Um leið hvíslar hún hugsunum sínum að leirnum, ? og áhorfandanum, sem ósjálfrátt lifir sig inn í þetta einfalda skapandi ferli; að móta, horfa, hugsa. Lífið og listin eru eitt og hið sama, sú sem skapar er líka móðir, hefur mörgum hlutverkum að gegna. Móðirin felur í sér hina eilífu hringrás, það sem var, er og verður. Listin sprettur úr lífinu sjálfu og nærir það um leið.

Markmið listakonunnar er ekki eitt, óhagganlegt form leirsins, eða ákveðin niðurstaða hugrenningaflæðis, heldur hver hreyfing, hver hugsun. List er sköpun, ekki niðurstaða. Að einhverju leyti minnir vinnuaðferðin á tilraunir listamanna á síðustu öld, þegar súrrealistar gáfu undirmeðvitundinni lausan tauminn í ósjálfráðri skrift og teikningu. Áhersla á sköpunarferlið birtist einnig síðar á öldinni, til dæmis í afstöðu Fluxus-listamanna og í verkum gjörningalistamanna.

Í verkum Guðrúnar Veru hefur sköpunarferlið sem slíkt alla tíð verið sýnilegur hluti listaverkanna. Það er einkennandi fyrir styttur hennar að leirinn sem hún notar er af sérstakri gerð, plastilina, leir sem ekki harðnar utan þess að þunn skel myndast utan á höggmyndunum, líkt og vax. Þetta gerir myndirnar sérstaklega viðkvæmar og mýkt efnisins verður líka til þess að draga úr tilfinningunni fyrir einni endanlegri niðurstöðu; styttur Guðrúnar Veru eru aldrei greiptar í stein, aldrei óbreytanlegar og eilífar. Að auki gerir vaxáferð höggmyndanna það að verkum að ryk safnast utan á þær, hægfara ferli sem skapar aukna dýpt í áferð þeirra og mynd þeirra er aldrei endanleg.

JBK Ransu hefur í list sinni rannsakað strauma og stefnur sem fram komu á tuttugustu öld í málaralist. Í verkum sínum hefur hann gjarnan teflt saman andstæðum pólum og velt fyrir sér hvernig hið andlega og það félagslega birtist þar. Hann notar afgerandi liti og í myndum hans hefur m.a. brugðið fyrir vörumerki Nike og tilvísunum í málverk Barnetts Newman sem tengingu við vestrænan skilning á andlegum málefnum. Í því samhengi má geta þess að listamannsnafnið Ransu á uppruna sinn í andlegri reynslu listamannsins þegar hann dvaldist við hugleiðslu í Kosta Ríka. Andstæður frjálsræðis slettumálverka Jacksons Pollock og hreinna lína geómetrískrar listar voru síðan viðfangsefni hans í röð stórra málverka, Ex-Geo.

Andstæðir pólar mætast áfram í myndröð Ransu í Listasafninu á Akureyri, Ópinu, sem unnin er í silkiþrykk, akríl og túss. Hér mætir símynstur í anda op-listar ljósmyndum af ópum kvenna í bandarískum hryllingsmyndum. Að baki liggur rannsókn á hugmyndum heimspekinga um eðli listaverksins, aðdráttarafli þess og gildi í samtímanum. Í myndröðinni skoðar Ransu m.a. hvernig skemmtanavæðing samtímans hefur náð tökum jafnt á hámenningu sem lágmenningu.

Þekktasta birtingarmynd óps allra tíma er vitaskuld málverk norska málarans Edvards Munch, Ópið, eitt frægasta málverk listasögunnar ásamt Monu Lisu. Bæði listaverkin hafa fyrir löngu öðlast framhaldslíf í menningarafþreyingu nútímans, í endurprentunum og minjagripum. Ópið eftir Edvard Munch lýsir hreinum hryllingi, skelfing sálar birtist á myndfletinum. Í bandarískum hryllingsmyndum er ópið einnig lykilatriði, en hryllingurinn er orðinn að afþreyingu. Í myndröð sinni hefur JBK Ransu fundið myndir af þekktum ?ópum? í sögu kvikmyndanna og stillt þeim upp á myndfleti ásamt símynstri sem minnir á sjónblekkingarleiki op-listarinnar.

Ransu hefur í verkum sínum iðulega sótt innblástur til Op-listar, (dregið af optical art: sjónræn list) sem fram kom á sjöunda áratug síðustu aldar. Listamenn beittu samspili forma og lita til þess að skapa skynvillu á myndfleti; hreyfingu, dýpt og flökt. Þannig geta form virst á hreyfingu, litir orðið til á hvítum myndfleti, og tvívíður myndflötur virst þrívíður. Sjónblekkingar í ætt við op-list hafa birst í hryllingsmyndum til að skapa andrúmsloft veruleikafirringar og hafa sömuleiðis verið notaðar við pyntingar á stríðsföngum. Í myndröðinni hefur Ransu einnig í huga ákveðna tækni sem notuð var við kvikmyndatöku í myndum Alfreds Hitchcock og hefur að markmiði að brengla fjarlægðarskyn áhorfandans.

Í Ópinu eftir Ransu eru því margir þættir að verki; menningarsögulegir, listasögulegir, sálfræðilegir og sjónrænir. Eins og í öllum verkum sínum vinnur listamaðurinn hér markvisst með skynjun okkar, sjónina, og gerir upplifun á verkunum þannig ekki síður að forvitnilegum leik, sjónrænni skemmtun.

List er ferli í sífelldri mótun. Sköpun listamannsins tekur ekki enda þegar hann sleppir hendinni af verkum sínum og sendir þau út í heim áhorfandans. Móttakandinn gefur listaverkinu líf; horfir, hlustar, tekur inn, upplifir og túlkar.

Listaverk þeirra Guðrúnar Veru og JBK Ransu mætast í þessu fjölbreytta ferli sem aldrei tekur enda. Þar sem þrívíð verk myndhöggvarans Guðrúnar Veru fjalla að hluta til um innri leyndardóma sköpunarferlisins, beinir málarinn Ransu ekki síður sjónum sínum að því ferli sem við tekur eftir að listamaðurinn sendir verk sitt frá sér, að framhaldslífi listaverka innan menningar samtímans.

Ragna Sigurðardóttir

--------------------------------------

Guðrún Vera Hjartardóttir er fædd í Reykjavík 1966. Hún lagði stund á nám við Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og AKI, Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie, í Enschede í Hollandi og lauk þar BA námi í myndlist árið 1994. Hún hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína, m.a. úr Listasjóði Pennans og listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Guðrún Vera hefur haldið fjölda einkasýninga allt frá árinu 1994, þar á meðal í Listasafni Reykjavíkur árið 2005 og í Broadway Gallery, New York, 2008, auk þess að taka þátt í ótal samsýningum víða um heim. Verk eftir Guðrúnu Veru eru í eigu allra helstu listasafna landsins.

JBK Ransu er fæddur í Reykjavík 1967. Hann lauk BA námi í myndlist við AKI, Akademie voor Beeldendi Kunst en Industrie, í Enschede í Hollandi og var gestanemi í National College of Art and Design í Dyflinni á Írlandi árið 1995. Ransu hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis. Hann hefur hlotið styrki og viðurkenningar fyrir list sína, m.a. starfsstyrk frá Krasner-Pollock Foundation í New York. Verk eftir Ransu eru í eigu helstu safna hér á landi.

Auk listsköpunar hefur JBK Ransu verið virkur á myndlistarsviðinu á margvíslegan máta. Hann var listgagnrýnandi við Morgunblaðið um árabil og hefur tekið að sér sýningarstjórn, m.a. fyrir Listasafn Reykjavíkur. Ransu hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á myndlistarsviðinu, setið í stjórn SÍM og í dómnefndum. Árið 2012 skrifaði hann bókina Listgildi samtímans: Handbók um samtímalist á Íslandi, þar sem hann fjallar um stöðu samtímalistar í nútímanum.