Mikil gleði á opnunardegi

Á laugardaginn á Akureyrarvöku voru ný salarkynni Listasafnsins formlega opnuð almenningi og jafnframt var 25 ára afmæli safnsins fagnað. Mikil ánægja ríkti á meðal þeirra þrjú þúsund gesta sem heimsóttu safnið á opnunardaginn og nutu veitinga, ávarpa, tónlistaratriða og sex sýninga sem opnaðar voru af þessu tilefni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp, sömuleiðis Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir nýr bæjarstjóri á Akureyri og Hlynur Hallsson safnstjóri. Listamennirnir sem opnuðu sýningar í safninu á laugardaginn eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Hjördís Frímann og Magnús Helgason. Einnig voru opnaðar sýningar á verkum úr safneignum Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ, og ljósmyndasýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Framkvæmdir við endurbæturnar stóðu yfir í rúmt ár og er kostnaður um 700 milljónir króna. Sýningasalir voru áður fimm en eru nú tólf. Safnið var að mestu lokað gestum og gangandi á framkvæmdatímanum en sýningahald var engu að síður stöðugt þar sem aðalsýningarýmið færðist yfir í Ketilhúsið. Með endurbótunum eru byggingarnar tvær sameinaðar með tengibyggingu.

Um þessar mundir er einnig fagnað 25 ára afmæli safnsins með vikulangri opnunar- og afmælisdagskrá þar sem verður m.a. boðið upp á listamannaspjall, leiðsögn, jazztónleika og ljóðalestur.

Dagskrá:

Mánudagur 27. ágúst
Kl. 17: Leiðsögn um sýningarnar Svipirverk úr safneign Listasafns ASÍ og Frá Kaupfélagsgili til Listagils. Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnastjóri, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýningarnar.

Þriðjudagur 28. ágúst
Kl. 17: Leiðsögn um sýninguna Úrval – valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri. Hlynur Hallsson, safnstjóri, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýningarnar.

Miðvikudagur 29. ágúst
Kl. 17:
Sóknarskáld. Karólína Rós og Sölvi Halldórsson flytja eigin ljóð um ástir, sundlaugar og umferðina. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Gil kaffihús.

Fimmtudagur 30. ágúst
Kl. 15-15.30:
Leiðsögn um sýningu Anítu Hirlekar, Bleikur og grænn. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna.

Föstudagur 31. ágúst
Kl. 21: Jazz í Listagilinu. The Jazz Standard Quartet: Stefán Ingólfsson, Rodrigo Lopez, Ludvig Kári og Dimitrios Theodoropoulos. Tónleikarnir eru í samstarfi við Gil kaffihús.

Laugardagur 1. september
Kl. 11-12:
Fjölskylduleiðsögn um sýningu Hjördísar Frímann og Magnúsar Helgasonar, Hugmyndir. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, segir börnum og fullorðnum frá sýningunni. Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum listamannanna.

Kl. 15-15.45: Leiðsögn með listamanni um útisýninguna Fullveldið endurskoðað. Gunnar Kr. Jónasson segir frá hugleiðingum sínum í tengslum við sýninguna og einstaka verk. Leiðsögnin hefst kl. 15 við inngang Listasafnsins og verður svo gengið á milli verkanna sem staðsett eru víða í miðbænum. 

Sunnudagur 2. september
Kl. 14:
Upplestraröðin Til málamynda: Vilhjálmur Bragason.