Leiðsögn um GraN 2015

Fimmtudaginn 29. október kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri um sýninguna GraN 2015 sem var opnuð um síðastliðna helgi. Guðmundur Ármann Sigurjónsson listamaður tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

GraN 2015 endurspeglar þá fjölbreytni sem er að finna í grafíklist á Norðurlöndum og þann kraft og færni sem býr í norrænum grafíklistamönnum. Á sýningunni sýna 25 grafíklistamenn frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

Að sýningunni stendur GraN sem er hópur grafíklistamanna og áhugamanna um myndlist á Íslandi sem stefnir að því að auka veg grafíklistar, koma á reglulegu sýningarhaldi og útgáfu á efni um grafík. Hópinn mynda Íslensk Grafík, Listasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Norræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri og Arsborealis. Vegleg sýningarskrá kemur út af þessu tilefni.