Fáguð hreyfikerfi

Fáguð hreyfikerfi
Reynir Axelsson.

Þriðji og síðasti fyrirlesturinn í tengslum við síðustu viku sýningar Jóns Laxdal Halldórssonar, ...úr rústum og rusli tímans, og útgáfu samnefndrar viðtalsbókar Guðbrands Siglaugssonar fer fram föstudaginn 11. mars, kl. 17.15 í Miðsal Listasafnsins á Akureyri. Reynir Axelsson stærðfræðingur heldur þá fyrirlestur undir yfirskriftinni Fáguð hreyfikerfi. Hreyfikerfi eru fyrirbæri sem breytast í tíma samkvæmt einhverri tiltekinni reglu. Í fyrirlestrinum verður reynt að sýna hvernig jafnvel einföldustu reglur gefa af sér hreyfikerfi með ótrúlega flókna hegðun sem getur birst í óendanlega flóknum myndum. Aðgangur er ókeypis. 

Reynir Axelsson nam stærðfræði við háskólana í Göttingen og Münster í Þýskalandi og við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Hann lauk doktorsprófi árið 1973 og hefur frá árinu 1975 starfað við Háskóla Íslands við kennslu og rannsóknir, þótt í aðeins minna mæli sé eftir að hann lét formlega af störfum árið 2014 fyrir aldurs sakir.