Frá elsta söguljóði heims til landsleiks í knattspyrnu

Frá elsta söguljóði heims til landsleiks í knattspyrnu
Þorlákur Axel Jónsson.

Þriðjudaginn 3. nóvember kl. 17 heldur Þorlákur Axel Jónsson sagnfræðingur fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Frá elsta söguljóði heims til landsleiks í knattspyrnu. Í fyrirlestrinum verður farið með áheyrendum í hugmynda- og listasögulega ferð frá elsta söguljóði heims um Gilgamesh konung í Úrúk í Mesapótamíu til landsleiks í knattspyrnu á Íslandi í samtímanum. Tengslin þarna á milli verða rakin með viðkomu á kappleik í klassískri fornöld, í svarfdælskri miðaldamessu og hjá endurreistu nútímafólki, konu og karli. Fyrirlesturinn á að kalla fram samtal við áheyrendur um túlkun fyrirlesara á samhenginu í menningarsögulegri endurnýjun hugmynda fólks um sjálft sig og heiminn sem það byggir.

Þorlákur Axel Jónsson er cand. mag. í sögu og þjóðfélagsfræði frá Kaupmannahafnar háskóla en kennir hugmyndasögu og aðferðafræði við Háskólann á Akureyri. Hann hefur langa reynslu af kennslu félagsgreina og mannvísinda við Menntaskólann á Akureyri en stundar nú með öðrum störfum doktorsnám í kennaradeild menntavísindasviðs Háskóla Íslands. 

Fyrirlesturinn er sá sjötti í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Næstu fyrirlesarar eru í tímaröð Haraldur Ingi Haraldsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir og Þórhallur Kristjánsson.