Framkvæmdir í Listasafninu

Framkvæmdir í Listasafninu
Nýtt útlit Listasafnsins.

Sumarið 2018 verður aðalhúsnæði Listasafnsins á Akureyri opnað að nýju eftir stórfelldar endurbætur og stækkun, en fram að því verður sýningarýmið í Ketilhúsinu. Teknir verða í notkun bjartir og fallegir sýningarsalir á fjórðu hæð. Nýr og betri inngangur með bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og barnavagna verður á jarðhæð ásamt safnbúð og notalegu kaffihúsi. Aðstaða fyrir safnkennslu batnar til muna og tækifæri skapast á fastri sýningu með verkum úr safneign auk sögusýningar um fjölbreytt atvinnu- og listalífi í Gilinu í áranna rás. Þessar breytingar færa Listasafninu nýja ásýnd og gott flæði myndast í starfseminni. Með þeim tengist bygging gamla Mjólkursamlagsins Ketilhúsinu og úr verður ein heild.

Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson hjá Kurt og Pí hafa sérhæft sig í endurgerð verksmiðjuhúsnæðis þar sem virðing er jafnframt borin fyrir sögunni. Þeir hafa teiknað upp breytta nýtingu og nýtt skipulag þessa fyrrum iðnaðarhúsnæðis í Gilinu.

Starfsemi í byggingunni verður áfram fjölbreytt: Mjólkurbúðin verður á sínum stað sem og vinnustofur listamanna, listamannarekin sýningarými og gestavinnustofur. Í auknum mæli verður Ketilhúsið notað fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur. Listasafnið mun þannig laða að sér bæjarbúa og gesti í auknum mæli og af fjölbreyttari tilefni en fram til þessa.