Fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins
Dóri DNA og Saga

Þriðjudaginn 29. september kl. 17 halda leikararnir Dóri DNA og Saga Garðarsdóttir fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Er grín fyndið? Þar fjalla þau um mörkin í gríni og hvað sé viðeigandi og hvað óviðeigandi. Aðgangur er ókeypis. 

Halldór Laxness Halldórsson er sviðshöfundur, leikari og uppistandari. Eftir útskrift úr MH nam hann leiklistarfræði við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BFA gráðu. Síðan þá hefur hann unnið sem grínisti, handrits- og pistlahöfundur, leikari og leikstjóri. Saga Garðarsdóttir er leikkona, handritshöfundur og fyndlistakona. Eftir að hafa lokið námi frá Menntaskólanum í Reykjavík gekk hún í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BFA gráðu í leiklist. Síðan þá hefur hún starfað sem leikkona, grínisti, pistla- og handritshöfundur.  

Fyrirlesturinn er sá fyrsti í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Jón Þór Sigurðsson, Ragnheiður Þórsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir, Þorlákur Axel Jónsson, Haraldur Ingi Haraldsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir og Þórhallur Kristjánsson.